Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að það sé misskilningur að dómnefnd sem mat hæfi umsækjenda til að gegna embætti dómara við Landsrétt hafi gert upp á milli þeirra 15 sem hún tilnefndi í embættin. Dómnefndin hafi hafi ekki raðað þessum 15 umsækjendum í tölsett sæti eftir hæfni. Þetta kemur fram á mbl.is. Ráðherrann segist ekki óttast að framvinda málsins muni bitna á trausti til Landsréttar.
Á lista sem dómnefndin gerði yfir hæfni umsækjenda, og Kjarninn birti á þriðjudag í síðustu viku, var umsækjendum raðað í tölusett sæti eftir þeirri hæfniseinkunn sem dómnefndin gaf hverjum og einum umsækjenda. Sá listi var meðal annars á meðal þeirra gagna sem lögð voru fyrir stjórnskipunar- eftirlitsnefnd við meðferð málsins. Sigríður ákvað að breyta þeirri röðun sem dómnefndin hafði lagt til og skipta út fjórum af þeim 15 sem nefndin vildi að skipaðir yrði í embættin 15.
Sigríður segir við mbl.is að dómnefndin hafi tekið fram að hún geri ekki upp á milli þeirra 15 sem hún mælti með og taldi hæfa. Sigríður segist telja að 24 séu hæfir og að allir séu þeir jafn hæfir. Af þeim 24 manna lista hafi hún valið og lagt heildstætt mat á umsækjendur, meðal annars út frá dómarareynslu. Þannig hafi hún komist að niðurstöðu sinni um hverja ætti að tilnefnda í réttinn.
Telja að ráðherra hafi brotið lög
Samkvæmt lista dómnefndar hafði hún komist að þeirri niðurstöðu að 15 af 33 umsækjendum væru hæfastir í þau 15 embætti dómara við Landsrétt sem í boði eru. Sigríður ákvað að breyta röðun listans með þeim hætti að fjórir sem dómnefnd tilnefndi hurfu af honum og fjórum öðrum var bætt við. Hún rökstuddi þessa ákvörðun sína með því að hún vildi gera dómarareynslu umsækjenda hærra undir höfði. Stjórnarandstaðan taldi að ráðherrann hefði ekki rökstutt breytingarnar sínar nægilega vel og vildi að ákvörðun í málinu yrði frestað þannig að hægt yrði að vinna það betur. Var það meðal annars gert vegna harðrar gagnrýni frá lögmönnum sem skiluðu umsögnum inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og vegna þess að rökstuðningurinn gekk ekki upp ef hann miðað við stigagjöf dómnefndar fyrir dómarareynslu einvörðungu.
Málið var hins vegar samþykkt með atkvæðum stjórnarliða einvörðungu. Einn þeirra umsækjenda sem var fjarlægður af listanum, Ástráður Haraldsson, hefur þegar tilkynnt að hann muni stefna íslenska ríkinu og ráðherranum sjálfum vegna málsins og telur hana hafa brotið lög. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem einnig var fjarlægður af listanum, hefur einnig sagt að hann íhugi að leita réttar síns.
Jón Höskuldsson hefur sömuleiðis sagt að hann liggi undir feldi um næstu skref en Eiríkur Jónsson, sem dómnefndin mat sjöunda hæfasta umsækjandann, hefur ekkert viljað láta hafa eftir sér opinberlega um hvort hann ætli að höfða mál eða ekki.