Íslenskt efnahagslíf gengur mun betur en það hefur gert um langt skeið. Landið er hins vegar að verða vinsælla en það á innstæðu fyrir. Húsnæðisverð er að hækka of hratt og ferðamönnum fjölgar of hratt. Vöxtur húsnæðisverð og fjölgun ferðamanna er því ósjálfbær til lengdar. Þetta er niðurstaða greiningar norræna bankans Nordea, sem er nú farinn að greina Ísland að nýju sem mögulegan fjárfestingakost.
Greinandi Nordea heimsótti Ísland seinni hlutann í maí og birti niðurstöðu sína eftir þá heimsókn um síðustu mánaðamót. Hann fundaði meðal annars með Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, blaðamanni og þremur stærstu bönkum landsins: Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka.
Rússíbanareiðin
Í greiningunni segir að myndlíkingin rússíbani hafi verið notuð oftar en einu sinni þegar viðmælendur voru að lýsa íslensku efnahagslífi. Tveir vaxtahvatar, hækkun húsnæðisverðs og fjölgun ferðamanna, séu ekki sjálfbærir til lengdar. Húsnæðisverð hafi hækkað um 20 prósent á einu ári og fjöldi ferðamanna hafi tæplega fimmfaldast frá 2010.
Viðmælendur greinanda Nordea gáfu nokkrar mismunandi skýringar á því að þeir töldu að ekki væri yfirstandandi húsnæðisbóla, þrátt fyrir þessar miklu hækkanir. Bentu þeir meðal annars á að skuldsetning heimila væri enn mjög lág og aðgerðir væru fram undan til að draga úr umframeftirspurn á markaðnum, sem hefði keyrt upp verðið. Þá sögðu viðmælendur að fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu myndi draga úr vexti ef stjórnmálamenn myndu hafa kjark til að ráðast í hana í ljósi mikillar andstöðu innan greinarinnar. Auk þess búast margir við því að draga muni skarpt úr fjölgun ferðamanna vegna styrkingar krónunnar og vegna þess að helstu ferðamannastaðir landsins eru orðnir ansi þéttsetnir.
Stöðuleikasjóður í umræðunni
Í greiningunni segir að Seðlabankinn sé fastur milli steins og sleggju. Hinn mikli vöxtur sem er í hagkerfinu krefst þess að meginvextir séu háir, en styrking krónunnar kallar á hinn boginn á lægri vexti. Greinandi Nordea segir að Seðlabankinn virðist vera einn á báti með þá skoðun að styrking krónunnar sé réttlætanleg vegna undirliggjandi stöðu. Aðrir sem hann ræddi við virðast hafa þá skoðun að styrking krónu sé komin að þeim mörkum að hún skaðar allar aðrar útflutningsgreinar nema ferðaþjónustu, og nú sé hún meira að segja orðin svo sterk að sá skaði nær til ferðaþjónustunnar líka.
Í greiningunni segir að viðmælendur hafi upplýst um að verið væri að ræða uppsetningu á stöðugleikasjóð í anda olíusjóðs Norðmanna, sem ætlað væri sveiflujöfnunarhlutverk. Ákvörðun um hvort af stofnun hans verði muni þó ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi í árslok.