„Sú spurning hefur vaknað hvort lausnin á þeim vanda sem hér hefur verið lýst felist ekki í myntráði sem kæmi í stað sveigjanlegs gengis. Í slíku kerfi væri gengi krónunnar fast, en það kæmi ekki í veg fyrir ris raungengis í núverandi uppsveiflu. Raungengið hefði því einnig hækkað í því kerfi undanfarin ár. Ef ferðaþjónusta síðan skreppur saman og gjaldeyristekjur minnka í framtíðinni þá væri erfiðara að lækka raungengið, slíkt þyrfti að gerast í gegnum verðhjöðnun eða minni verðbólgu en í viðskiptalöndunum.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og einn nefndarmanna í Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Í greininni fjallar hann um stöðu efnahagsmála og einkum gengi krónunnar og styrkingu hennar gagnvart helstu viðskiptamyntum undanfarin misseri. Gengi krónunnar hefur styrkst um rúmlega 20 prósent gagnvart evru og Bandaríkjadal á undanförnum 10 mánuðum og gagnvart pundinu eru styrkingin um 30 prósent.
Stjórnvöld eru nú að fara yfir leiðir til að styrkja framkvæmd peningastefnunnar, og er verkefnastjórn að störfum í þeim tilgangi. Í henni eru Ásgeir Jónsson, Illugi Gunnarsson og Ásdís Kristjánsdóttir, en markmiðið er að ljúka vinnu stjórnvalda varðandi þessi mál á þessu ári.
Gylfi segir að sá grundvallarmunur sé nú á stöðu mála, samanborið við stöðuna sem var fyrir hrunið 2008, að gjaldeyrir streymi nú til landsins sem tekjur en ekki sem lánsfé. Þetta hafi gerst samhliða vaxandi eftirspurn eftir vörum og þjónustu á Íslandi, ekki síst vegna hins mikla vaxtar sem verið hefur í ferðaþjónustu. Þetta sé í grunninn jákvætt, en mikilvægast af öllu sé að skapa farveg fyrir hóflegan hagvöxt til lengri tíma og aðstæður sem geti stuðlað að vel launuðum störfum fyrir fólkið í landinu. „En gengi krónunnar ákvarðast ekki einungis af markaðsöflum. Á síðustu fjórum árum hefur Seðlabankinn keypt gjaldeyri fyrir hundruðir milljarða króna og þannig komið í veg fyrir enn meiri hækkun gengis krónunnar. Þetta var gert til þess að safna forða í aðdraganda afléttingar fjármagnshafta. En bankinn hefur einnig með inngripum dregið úr gengissveiflum allt frá vori 2013 eins og sést þegar hreyfingar gengisvísitölunnar eru skoðaðar,“ segir Gylfi, og bendir á að Seðlabanki Íslands búi nú yfir betri vopnum en áður til að takast á við ýmsar hliðar hagstjórnarinnar. Til dæmis hafi sérstök bindiskylda á erlendar fjárfestingar á skuldabréfamarkaði, og inngrip á gjaldeyrismarkaði, hjálpað til við að vinna gegna annmörkum hreins flotgengis krónunnar með tilheyrandi sveiflum.
Gylfi segir að hugmyndir um myntráð eða fastgengisstefnu, geti falið í sér hættur, en með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru, eða föstu gengi krónunnar gagnvart henni, væri öruggari leið. „Myntráðið gæti orðið fyrir áhlaupi þegar fjárfestar gerðu sér grein fyrir því að raungengi væri of hátt, efnahagslífið væri í kreppu og stjórnvöld vantaði vilja til þess að verja slíkt kerfi. Hrun myntráðs yrði alvarlegri atburður en gengisfall flotkrónu og getur skapað fjármálakreppu. Aðild að Evrópusambandinu með annaðhvort evruaðild eða föstu gengi gagnvart evru, sem er sú leið sem Danir hafa farið, væri öruggara kerfi vegna þess að þá væri fyrir hendi samtrygging og gagnkvæm áhættudreifing sem ekki felst í einhliða myntráði,“ segir Gylfi, í grein sinni í Vísbendingu.
Ennfremur segir Gylfi, að þrátt fyrir að verðbólga hafi haldist í skefjum í langan tíma - en hún mælist nú 1,7 prósent en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent - þá sé ekki þar með sagt að það sé hægt að lækka vexti niður í stöðuna eins og hún er í öllum löndum í kringum okkur. „En nú gæti lesandinn spurt sig hvað hefði gerst ef vextir hefðu verið hafðir mun lægri, kannski 2% í stað 5%! Af hverju höfum við ekki sömu vexti og í Bretlandi eða evrulandi? Ástæðan er sú að á Íslandi er mikil uppsveifla, atvinnuleysi er lítið sem ekkert og laun hafa hækkað mikið á síðustu tveimur árum. Ef vextir væru þeir sömu og í öðrum löndum þar sem ekki er slík uppsveifla mætti búast við því að eignaverð hækkaði snarlega (hlutabréf og fasteignir), útlán til fyrirtækja og heimila ykjust, fjárfesting og einkaneysla ykist enn meira ásamt eftirspurn eftir vinnuafli. Þá myndi raungengi hækka vegna hækkunar innlendra launa og verðlags fremur en gengis. En slíkt samræmist ekki stefnu Seðlabankans sem á að halda verðlagi stöðugu.