„Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir að forseti neiti að undirrita stjórnarathöfn. Ef hann neitar að undirrita stjórnarathöfn að tillögu ráðherra þá getur hún ekki tekið gildi,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Ríflega 4.200 manns hafa undirritað áskorun til forseta Íslands og hvatt hann til að synja samþykkt Alþingis um skipan 15 dómara í Landsrétt.
Mikill hiti var í þingheimi, en tillaga Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra var að lokum samþykkt, 31 atkvæði gegn 22, en Framsóknarmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Frávísunartillaga hafði áður verið felld, 31 gegn 30, en tveir þingmenn, Svandís Svavarsdóttir og Brynjar Níelsson, tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni vegna tengsla við umsækjendur um starf dómara.
„Það er grundvallarmunur á hvort forseti neitar að undirrita lög eða neitar að undirrita skipun embættismanna því stjórnarskráin gerir ráð fyrir að forseti geti neitað að undirrita lög. Ef forseti neitar að undirrita lög þá taka þau strax gildi og síðan þarf að setja þau í þjóðaratkvæði svo þjóðin eigi lokaorðið. En þegar ráðherra leggur fyrir forseta tillögur til undirritunar, eins og milliríkjasamninga eða tillögu um þingrof, er gert ráð fyrir að forseti samþykki slíkt og undirriti. Það er hins vegar ljóst að ákvörðun getur ekki tekið gildi nema báðir undirriti, ráðherra og forseti,“ segir Björg í viðtali við Fréttablaðið.
Björg vísar til 19. greinar stjórnarskrár: „Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.“
Dómararnir 15 sem voru skipaðir af Alþingi, voru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.