Þjóðaröryggisráð kom saman í gær, og voru þar rædd ýmis almenn mál sem tengjast öryggisvörnum Íslands.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, gerði grein fyrir vinnu við netöryggismál, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti vinnu við gerð viðbúnaðar- og varnaráætlunar fyrir Ísland og Haraldur Johannessen Ríkislögreglustjóri kynnti vinnu varðandi hryðjuverkaógn í ljósi atburða í mörgum löndum á undanförnum misserum og árum.
Á fundi þjóðaröryggisráðsins var jafnframt gengið frá skipun Þórunnar J. Hafstein í embætti ritara þjóðaröryggisráðs. Þórunn hefur starfað sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu en mun nú hefja störf fyrir forsætisráðuneytið.
Í þjóðaröryggisráði sitja 11 fulltrúar. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess. Þá eiga þar sæti utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja.
Enn fremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn er úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar.
Í viðtali við RÚV sagði Bjarni Benediktsson að best færi á því að lögreglan svaraði fyrir aðgerðir á hverjum tíma, svo sem þegar um viðbúnað væri að ræða á fjöldasamkomum, eins og raunin hefði verið um helgina þar sem vopnaðir sérsveitarmenn voru sjáanlegir. Hann sagði enn fremur að ekki væri hægt að búast við því að Ísland yrði undanskilið í þeirri þróun sem hefði átt sér stað í löndum víða í kringum okkur, þar sem hryðjuverk hefðu verið framin.
Hann benti enn fremur á að Ísland væri öruggt land, og að lögreglan væri almennt ekki vopnum búin, og væri sú eina á Norðurlöndunum þar sem þannig væri.
Hann ítrekaði síðan að upplýsingar sem kynntar væru á fundum ráðsins væru bundnar trúnaði, og ekki hægt að ræða um þær eða kynna almenningi.