Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í svari við óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi þann 31. maí síðastliðinn að enginn fjárfestir, hvorki innlendur né erlendur, hafi sett sig í samband við ráðuneyti hans með það í huga að kaupa Keflavíkurflugvöll.
Í Facebook-færslu í dag opinberar Benedikt að þetta sé ekki rétt. Félagið Innviða fjárfestingar slhf. hafi verið í sambandi við fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrr á þessu ári um aðkomu fyrirtækisins að rekstri flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Jafnframt hefði fyrirtækið átt í viðræðum við fyrri ríkisstjórn um þetta mál. Til viðbótar hafi Kvika banki komið með fulltrúa Macquarie fjárfestingasjóðsins í ráðuneytið á fund 5. apríl síðastliðinn. Fulltrúi fyrirtækisins hafi sagt frá því að það hefði komið að ýmsum innviðafjárfestingum erlendis, meðal annars á flugvöllum. Á fundinum kom fram af hálfu ráðuneytisins að ekki væri á dagskrá að selja íslenska flugvelli. „Þó svo að þessir aðilar hafi ekki nefnt flugstöðina sérstaklega verður að segja að þeir hafi sýnt Isavia í heild áhuga, þó svo að meginefni fundarins hafi verið kynning á fyrirtækinu,“ segir Benedikt í stöðuuppfærslunni. Hann bætir við að sama dag og fyrirspurnin var borin upp á þingi, 31. maí, hafi Gylfi Ólafsson, annar aðstoðarmanna Benedikts, átt annan fund með þessum aðilum um sama efni. „Um þetta vissi ég ekki þá, enda miklar annir á síðustu dögum þingsins.“
Í frétt á Stundinni er greint frá því að miðillinn hafi spurt Benedikt um málið í gær. Benedikt hafi svarað með því að setja inn ofangreindan pistil á Facebook um málið í morgun.
Benedikt segir að honum þyki „leitt að hafa ekki tekið nákvæmar til orða í svari mínu, en rétt hefði verið að segja að mér væri ekki kunnugt um að neinn hefði sýnt flugstöðinni sérstaklega áhuga, en ég hefði orðið var við áhuga á Isavia í heild og haldið svo áfram með svarið eins og ég gerði. Þó að ég sé allur af vilja gerður veit ég ekki allt sem gerist innan ráðuneytisins. Óundirbúnar fyrirspurnir bera nafn með rentu og yfirleitt hef ég verið óhræddur við að svara því til þegar ég veit ekki nákvæmt svar, en í þetta sinn brást mér bogalistin. Reyni að svara betur næst.“
Óli Halldórsson, varaþingmaður Vinstri grænna, spurði Benedikt út þennan áhuga fjárfesta á Keflavíkurflugvelli í óundirbúnum fyrirspurnum í lok maí. Benedikt sagði að enginn hafi sett sig í samband við ráðuneyti sitt til að lýsa yfir áhuga á að kaupa flugstöðina, en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhlut ríkisins í Isavia, eiganda og rekstraraðila Keflavíkurflugvallar.
Eftir þingfundinn hafði Ómar Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga slhf., samband við ráðherrann og benti honum á að Innviðir fjárfestingar slhf. hefðu verið í sambandi við ráðuneytið fyrr á þessu ári um aðkomu fyrirtækisins að rekstri flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Jafnframt hefði fyrirtækið átt í viðræðum við fyrri ríkisstjórn um þetta mál. „Ég átti í framhaldinu fund með Ómari og Sigurgeiri Tryggvasyni síðastliðinn mánudag. Ég sagði þeim þá að í núverandi ríkisstjórn hefði ekki verið rætt með neinum hætti um slíka sölu, þó fjárlaganefnd hefði nefnt það í sínu áliti með fjármálaáætlun og samgönguráðherra hefði jafnframt nefnt það í viðtali við Stöð 2 í lok apríl. Sala væri ekki á dagskrá eins og er. Ef það breyttist yrði það með samþykki Alþingis og ferlið yrði opið. Ég hefði ekki ætlað að gera lítið úr fyrirtækinu eða áhuga þess, en ég hefði ekki vitað betur,“ segir Benedikt enn fremur í Facebook-færslu sinni.