Erlend greiðslukortavelta jókst um 7,1% á síðustu 12 mánuðum í maí samkvæmt Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst, en aukningin hefur ekki verið minni milli ára frá því að Rannsóknarsetrið hóf mælingar árið 2012.
Rannsóknarsetur verslunarinnar birti kortaveltu erlendra greiðslukorta fyrir maímánuð fyrr í dag, en hún nam 21,3 milljörðum króna samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Veltan hefur því aukist um 7,1%, en til samanburðar jókst veltan í apríl um 27,7% miðað við apríl í fyrra.
Mestur var samdrátturinn í kortaveltu gjafa- og minjagripaverslunar, en hann var um 18,9% milli ára. Mesta aukningin var hins vegar í kortaveltu farþegaflutninga, en hún jókst um 22,7% milli ára. Langstærsti liðurinn innan þess flokks er farþegaflug, en hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalinn í reikningunum.
Ljóst er að neyslumynstur ferðamanna hefur breyst og er það að öllum líkindum vegna sterkara gengis. Til að mynda jókst fjöldi ferðamanna í apríl síðastliðnum um 62% en kortavelta þeirra jókst aðeins um 27,7% fyrir sama tímabil.