Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist ákveðinn í að bjóða sig fram aftur í kosningunum á næsta ári og að hann leggi óhræddur störf sín í dóm kjósenda. „Starfið er áhugavert og fjölbreytt og maður fær tækifæri til að hafa áhrif á mótun samfélagsins. Ég horfi til þess að við höldum áfram að búa til græna borg sem leggur áherslu á lífsgæði, mannlíf og fjölbreytt atvinnutækifæri.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hann segir geysilegan metnað og framþróun í atvinnulífi Reykvíkinga, skólum, velferðarþjónustunni og hvert sem litið sé. Það séu forréttindi að fá innsýn í það og taka þátt í því. „Umræðan getur verið neikvæð á netinu en veruleikinn tekur henni langt fram og framúrskarandi móttökur sem ég fæ um alla borg hjá Reykvíkingum hvetja mig áfram á hverjum degi.“
Í viðtalinu segir Dagur frá því að fyrirmynd hans í embætti sé Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún hafi orðið þess valdandi að hann fór í pólitík. „Eitt af því sem hún og Reykjavíkurlistinn gerðu að lykilmáli í pólitík, og sem íhaldskarlar hlógu að árum saman, voru jafnréttismál, leikskólamál og barátta gegn ofbeldi. Það þurfti konur til að breyta þeim málum fyrir alvöru og það er arfur Kvennalistans sem við búum ennþá að. Borgarbúar studdu við þessar áherslur og mér finnst mikilvægt að halda þeim á lofti.“ Hann segir þó að brúa þurfi bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Dagvistunarmál séu miklu meira jafnréttismál en flestir átti sig á. „Það er okkar sveitarfélaganna að tryggja örugga og góða dagvistun. Það sama á við um fæðingarorlofið sem þarf að lengja í tólf mánuði á næstu árum og þarna á milli þarf að brúa bilið.“
Uppbygging íbúða stærsta kosningaloforðið síðast
Dagur var í viðtali í Kjarnanum fyrir nákvæmlega þremur árum síðan, þann 19. júní 2014. Hann var þá nýtekinn við sem borgarstjóri Reykjavíkur af Jón Gnarr. Dagur hafði reyndar náð að vera slíkur í 100 daga frá haustinu 2007 og fram í janúar 2008, á einu stormasamasta tímabili í sögu borgarinnar.
Meirihlutinn sem Dagur leiðir er samansettur af Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum. Nýleg könnun Viðskiptablaðsins sýndi að hann myndi ekki verða í neinum vandræðum með að halda ef kosið væri í dag. Saman mælast flokkarnir með 61,4 prósent fylgi en fengu 61,7 prósent í kosningunum 2014. Valdahlutföll innan meirihlutans myndu þó eitthvað breytast. Samfylkingin, flokkur Dags, fara úr 31,9 prósent fylgi í 22,3 prósent fylgi.
Stærsta kosningaloforð Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga var að byggja 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir í höfuðborginni. Samkvæmt upplýsingum á vefnum Íbúðauppbygging.is á að tryggja framgang slíkrar uppbyggingar fyrir vorið 2019. Af þeim eru 1.300 fyrirhugaðar á næsta ári, á kosningaárinu, og 1.400 á árinu 2019.