Hættan á því að íslenska hagkerfið ofhitni er skýr og viðvarandi, segir í umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands mældist hagvöxtur hér á landi 7 prósent í fyrra en hann hefur verið drifinn áfram af erlendum ferðamönnum, vaxandi einkaneyslu og fjárfestingu, án þess að skuldir hafi verið að aukast.
Stjórn sjóðsins ræddi málefni Íslands á fundi sínum í gær. Sendinefnd sjóðsins var hér á landi til viðræðna við íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila í mars síðastliðnum. Viðræður af þessu tagi fara árlega fram við öll aðildarlönd sjóðsins á grundvelli 4. greinar stofnsáttmálans (e. Article IV Consultation). Skýrslur sjóðsins um Ísland voru birtar í gær á heimasíðu hans.
Í umsögninni segir að vel hafi tekist til í þeim skrefum sem stigin hafa verið við afnám fjármagnshafta, en hamrað er á því að eftirlit með fjármálageiranum sé lykilatriði.
Sérstaklega er tekið fram, að gera þurfi strangar kröfur til fjárfesta sem vilji fara með virkan eignarhlut í bönkum. Þá kemur fram að fara þurfi varlega í stýringu á fjármagnsflæði inn í landið, en innstreymið hefur verið stöðugt vaxandi undanfarin ár, ekki síst vegna ferðaþjónustunnar.
Í umsögn sjóðsins kemur fram, að gengið hafi vel að halda aftur af verðbólgunni, en hún mælist nú 1,7 prósent.
Sérstök áhersla er lögð á það, að verja þurfi samkeppnishæfni landsins til framtíðar litið, og að ríkisvaldið þurfi að fara varlega í ríkisfjármálum og beita aðhaldssamri nálgun í stefnu sinni. Styrking krónunnar, sem verið hefur töluverð undanfarin misseri, þurfi ekki að vera áhyggjuefni ef það tekst að viðhalda og efla samkeppnishæfni landsins.