„Ekki er hægt að segja að ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi verið góð árið 2016. Sé litið til fjögurra stórra sjóða kemur fram að raunávöxtun þeirra var á bilinu -1,5% upp í 0,8%.“
Þetta segir Már Wolfang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, í ítarlegri grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar, þar sem fjallað er um stöðu íslenskra lífeyrissjóða miðað við rekstrarárið í fyrra.
Hann segir í greininni að skýringar á frekar slakri ávöxtun sjóðanna séu frekar einfaldar. „Í fyrsta lagi var ávöxtun hlutabréfa neikvæð á Íslandi árið 2016 en heildarvísitala Kauphallarinnar lækkaði um tæplega 5% eftir mjög góða ávöxtun árin áður. Þessi lækkun hélt áfram í upphafi ársins 2017. Komu þá margar gagnrýnisraddir fram um að lífeyrissjóðir hefðu til dæmis átt að vera búnir að minnka hlut sinn í Icelandair Group. Gleymdist í þeirri umræðu að þeir lífeyrissjóðir sem áttu stærsta hlutinn í félaginu höfðu keypt hann á miklu lægra gengi en það var þegar það fór lægst árið 2017. Viðbúið er að þeir sjóðstjórar sem hefðu selt þann hlut áður
en mesta hækkunin átti sér stað á gengi hlutabréfa Icelandair hefðu þurft að útskýra þær sölur síðar þegar gengið hafði hækkað enn meira. Þetta er gott dæmi um það að erfitt er að vera skynsöm manneskja í sjóðastýringu en samt vera „í takti“ við samfélagið á sama tíma, eins og Shiller fjallar um,“ segir Már.
Hann telur líklegt að hlutfall erlendra eigna í eignasöfnum íslenskra lífeyrissjóða muni hækka á næstunni, og það sjáist á opinberum tölum um breytingar á eignum þeirra að hreyfingin sé í þá veru. „Árið 2016 vó styrking íslensku krónunnar einfaldlega mest. Erlendar eignir lífeyrissjóða hafa síðustu ár verið í kringum 20-25% af heildareigum þeirra. Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða af heildareignum þeirra nam um 21,7% í árslok 2016 en miðað við bráðabirgðatölur Seðlabankans hefur það hlutfall hækkað í 22,6% á fyrstu fjórum mánuð- um þessa árs, 2017. Þetta er ef til vill ekki stórkostleg breyting í þessu samhengi en erlendar eignir íslenskra lífeyrissjóða hafa engu að síður aukist um 8% á einungis fjórum mánuðum samkvæmt þessum tölum. Líklegt er að lífeyrissjóðir auki erlendar eignir í söfnum sínum á næstu misserum,“ segir Már í grein sinni.
Eignir lífeyrissjóða námu 3.661 milljarða króna í lok apríl og höfðu því hækkað um 24 milljarða króna eða 0,7% frá síðasta mánuði. Þar af voru eignir samtryggingadeilda 3.308 milljarðar og séreignadeilda 353 milljarðar króna. Í lok apríl námu innlendar eignir lífeyrissjóða 2.872 milljarðar króna. Erlendar eignir lífeyrissjóða voru 789 milljarðr í lok apríl en það er 35 milljarða lækkun frá mars, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands.