Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar, hefur stofnað byggingafyrirtæki. Ásamt Össuri standa að félaginu Þórarinn Magnússon, fyrrverandi formaður Verkfræðingafélags Íslands, og Einar Karl Haraldsson, sem hefur starfað við almannatengsl árum saman og var aðstoðarmaður Össurar þegar hann var utanríkisráðherra. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að hið nýja fyrirtæki, sem beri nafnið DESHÚS byggingafélag ehf., horfi meðal annars til Reykjanesbæjar.
Össur er skráður bæði sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Tilgangur félagsins er almenn byggingarstarfsemi og er þar einkum horft til lítilla og meðalstórra íbúða.
Össur var einn mest áberandi stjórnmálamaður á Íslandi árum saman. Hann sat á Alþingi frá árinu 1991 og fram á síðasta haust, þegar Samfylkingin beið afhroð í októberkosningunum. Þá fékk flokkurinn einungis 5,9 prósent atkvæða og þrjá þingmenn og Össur, sem leiddi annað Reykjavíkurkjördæmið fyrir Samfylkinguna, var á meðal þeirra sem féllu af þingi. Össur var umhverfisráðherra á árunum 1993 til 1995, iðnaðarráðherra 2007 til 2009 og utanríkisráðherra 2009 til 2013. Hann var formaður Samfylkingarinnar frá árinu 2000 til 2005.