Ásta Dís Óladóttir hætti sem varamaður í bankaráði Landsbankans 21. júní þar sem hún taldi það ekki samrýmanlegt setu sinni í stjórn Samkeppniseftirlitsins. Þrátt fyrir að það hafi verið metið svo í upphafi, þegar hún tók sæti varamanns, að það væri í lagi, þá varð úr að hún hætti, eftir frekari umhugsun.
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðsins, segir í samtali við Kjarnann að þetta hafi orðið niðurstaðan, eingöngu til að tryggja að það væri enginn vafi uppi, varðandi þessi tengsl.
Skömmu áður en Ásta Dís tilkynnti bankaráðinu um að hún ætlaði sér að hætta sem varamaður, var tilkynnt um sátt sem Landsbankinn gerði við Samkeppniseftirlitið. Um hana var tilkynnt 12. júní.
Markmið sáttarinnar er að draga úr „skiptikostnaði í fjármálaþjónustu, stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi viðskiptavina og vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á viðskiptabankamarkaði,“ segir í tilkynningu vegna sáttarinnar.
Þá segir ennfremur að Landsbankinn hafi átt „gott samstarf við Samkeppniseftirlitið við að greina samkeppnisréttarlegar áskoranir á markaði fyrir viðskiptabankastarfsemi og móta aðgerðaráætlun til að örva samkeppni. Þær aðgerðir sem bankinn ræðst í eru afrakstur þeirrar vinnu. Það er mat bankans að aðgerðirnar styrki stöðu og réttindi viðskiptavina, auki gagnsæi og ýti undir frekari tækniþróun í viðskiptabankastarfsemi. Hluti af samstarfinu hefur falið í sér að innleiða þær aðgerðir sem fjallað er um í sáttinni og eru margar þeirra þegar komnar til framkvæmda.“
Á grundvelli sáttarinnar við Samkeppniseftirlitið var ákveðið að ráðast í eftirtaldar aðgerðir, eins og þær eru útlistaðar á vef bankans.
- Uppgreiðslugjöld verða ekki lögð á uppgreiðslur skuldara inn á nein ný og útistandandi lán einstaklinga og smærri fyrirtækja sem bera breytilega vexti.
- Þóknun við flutning bundins séreignasparnaðar frá bankanum mun ekki fara yfir tiltekin hámörk.
- Yfirtaka íbúðaláns verður ekki háð því að kaupandinn færi önnur bankaviðskipti sín til bankans.
- Viðskiptavinum verður auðveldað að færa bankaviðskipti sín milli banka. Val, þróun og innleiðing kerfa og tæknilegra úrlausna mun miða að þessu og þjónustukannanir nýttar til að bera kennsl á áherslur viðskiptavina í tengslum við þetta og mun bankinn bregðast við þeim.
- Viðskiptavinir verða upplýstir sérstaklega um verulegar breytingar á vöxtum og verðskrá áður en þær eiga sér stað, til að gefa viðskiptavinum svigrúm til þess að færa viðskipti sín ef þeir svo kjósa.
- Tekið verður upp upplýsingatækniviðmót (e. API) sem gerir þriðju aðilum kleift að setja upp samanburðarvefsíðu sem virkjað gæti skilvirkara neytendaaðhald.
- Tilteknir skilmálar íbúðalána sem fela í sér verulega bindingu verða ekki virkjaðir.
Í bankaráði Landsbankans sitja, auk Helgu Bjarkar, Berglind Svavarsdóttir, Magnús Pétursson, sem er varaformaður ráðsins, Sigríður Benediktsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson og Jón Guðmann Pétursson. Varamaður í bankaráðinu er Samúel Guðmundsson.
Landsbankinn er að meira en 98 prósent leyti í eigu íslenska ríkisins, en um er að ræða eitt stærsta fyrirtæki landsins, þegar horft er til efnahags og eigin fjárs. Í byrjun þessa árs var eigin fé Landsbankans 251 milljarður króna.