Kjósendur taka sterkustu afstöðu til Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, af öllum meðlimum ríkisstjórnarinnar, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Maskínu. Mesta ánægjan, (28%) mældist með frammistöðu Bjarna af öllum ráðherrum, en einnig mesta óánægjan (50%).
Alls reyndust 28% Íslendinga ánægð með frammistöðu Bjarna Benediktssonar, en 50% reyndust óánægð með frammistöðu hans. Um tveir þriðju hlutar stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru ánægð með frammistöðu hans, en aðeins um 3% þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina.
Næst ánægðastir virðast Íslendingar með frammistöðu Bjartar Ólafsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttir. Á eftir þeim fylgja svo Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Minnst ánægja mældist með störf Jóns Gunnarssonar. Á eftir honum fylgja svo Sigríður Á. Andersen, Benedikt Jóhannesson, Óttar Proppé og Kristján Þór Júlíusson.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist á bilinu 35 til 36%, en hann er mestur í nágrannasveitafélögum Reykjavíkur, eða tæplega 46%. Jákvæð fylgni er milli tekna einstaklinga og stuðnings við ríkisstjórnina.
Samkvæmt Maskínu voru svarendur 778 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu,sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 1. til 13. júní 2017.
Niðurstöður ánægjukönnunar Maskínu
Ráðherra | Óánægja | Ánægja |
---|---|---|
Bjarni Benediktsson | 50,2% | 28,0% |
Björt Ólafsdóttir | 29,0% | 23,5% |
Guðlaugur Þór Þórðarson | 25,5% | 23,5% |
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir | 23,1% | 23,0% |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir | 26,7% | 21,6% |
Kristján Þór Júlíusson | 40,2% | 13,2% |
Óttarr Proppé | 44,7% | 13,2% |
Sigríður Á. Andersen | 49,1% | 11,4% |
Benedikt Jóhannesson | 48,1% | 11,3% |
Jón Gunnarsson | 44,5% | 9,0% |