Landsnet hefur borgað verkfræðistofunni ARA Engineering 172 milljónir fyrir sérfræðiþjónustu á síðustu sjö árum. Fyrrverandi forstjóri Landsnets vinnur nú sem sérfræðingur hjá ARA.
Verkfræðistofan ARA Engineering var stofnuð árið 2010 og hefur hefur á þeim tíma sinnt 52 verkefnum fyrir Landsnet. Engin þessara verkefna voru komin á með útboði, en ARA hefur tekið þátt í tveimur útboðum og fengið verkefnið í hvorugt skiptið.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets til ársins 2015, starfar nú sem sérfræðingur á vegum ARA. Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Þórðar, tók við af honum sem forstjóri Landsnets.
Í samtali við Kjarnann segir Einar Snorri Einarsson, framkvæmdastjóri Landsnets, verkefni ARA vera í samræmi við innkaupareglur þeirra, en mörg þessara verkefna hafi verið valin á grundvelli sérþekkingar á viðfangsefninu.
Kostnaður þessara 52 verkefna var hæst 14,2 milljónir og lægst 50 þúsund. Alls hefur Landsnet borgað ARA Engineering tæpar 172 milljónir vegna sérfræðiverkefna á síðustu sjö árum.
Landsnet er að hluta til opinbert fyrirtæki, en eigendur þess eru Landsvirkjun, RARIK, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða.