Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að erlendir sérfræðingar muni veita ráðgjöf um endurskoðun peningastefnunefndar á Íslandi. Meðal þeirra verða fyrrverandi seðlabankastjórar og prófessor við MIT-háskóla.
Forsætisráðherra skipaði verkefnisstjórn til að leggja mat á peninga- og gengisstefnu Íslands eftir losun fjármagnshafta. Markmið hennar er að finna þá peningastefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að sytðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs. Núverandi peningastefna verður metin í því ljósi og hún borin saman við aðra valkosti til dæmis hefðbundið fastgengi eða myntráð.
Í stjórninni sitja Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra. Þórunn Helgadóttir, hagfræðingur í forsætisráðuneytinu, starfar einnig með verkefnisstjórninni. Með henni vinna einnig tengiliðir forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands.
Stjórnin hefur átt fundi með fulltrúum frá bönkum og fjármálaráðuneytum á Norðurlöndum ásamt öðrum erlendum sérfræðingum. Nokkrir þeirra hafa nú þegar þegið boð verkefnisstjórnarinnar um að veita stjórnvöldum ráðgjöf um peninga- og gengisstefnu til framtíðar. Þar ber fyrst til að telja:
- Patrick Honohan, fyrrum seðlabankastjóra Írlands og Athanasios Orphanides, prófessor við MIT-háskóla og fyrrum seðlabankastjóra Kýpur. Þeir munu sem munu meta reynsluna af verðbólgumarkmiði fyrir Ísland og reifa hugsanlegar umbætur.
- Sebastian Edwards, prófessor við UCLA-háskóla, en hann mun sérstaklega meta aðra valmöguleika peningastefnu fyrir Ísland en núverandi verðbólgumarkmið.
- Lars Jonung, prófessor við Háskólann í Lundi og Fredrik N. G. Andersson dósent við Háskólann í Lundi munu svo fjalla um íslenska peningastefnu í norrænum samanburði.