Læknafélag Íslands hefur samþykkt nýjan kjarasamning lækna með 65% atkvæða, en samkvæmt honum munu laun almennra lækna hækka um 5%.
Nýr kjarasamningur milli fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélagsins var undirritaður þann 6. júní síðastliðinn. Samkvæmt nýjasta tölublaði Læknablaðsins var samningurinn samþykktur þann 19. júní með 65% atkvæða. Læknar á kjörskrá voru alls 926 en kosningaþátttaka var 56,6%. Af þeim sögðu 341 læknir já og 164 læknar sögðu nei. 19 skiluðu auðu.
Kjarasamninginn má finna hér, en samkvæmt honum munu almennir lækkar fá 5% launahækkun. Laun sérfræðinga og yfirlækna munu einnig hækka um 2% auk þess sem grunnlaun kandítata hækka í 470.000 á mánuði. Hækkanirnar tóku gildi þann 1. maí síðastliðinn og gildir til 28. Febrúar 2019.
Samningurinn var samþykktur við aðrar aðstæður en fyrir þremur árum, en þá náðist ekki sátt um hann fyrr en eftir rúmlega tveggja mánaða verkfall.