Seðlabanki Íslands segir að skammtímasveiflur hafi aukist á gjaldeyrismarkaði, en þær megi rekja til aukinna fjármagnshreyfinga og væntinga um að krónan sé nær hátoppi. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis.
Í skýrslunni segir að gjaldeyriskaup Seðlabankans hafi numið 69,9 milljarða króna á fyrri hluta ársins. Þar af keypti bankinn gjaldeyri fyrir um 75,2 milljarða og seldi fyrir 5,3 milljarða króna. Viðskipti bankans námu 32% af veltu á gjaldeyrismarkaði á þessu tímabili, samanborið við 57% fyrir sama tímabil í fyrra.
Samkvæmt skýrslunni hefur flæði á gjaldeyrismarkaði verið jafnara í báðar áttir á fyrri hluta þessa árs en á seinni hluta síðasta árs. Því hafi verulega dregið úr styrkingu krónunnar, en til dæmis hafi hún lækkað um tæp 6% á síðari vikum júnímánaðar.
Í kjölfar lækkunar hefur Seðlabankinn tvisvar brugðist við með mótvægisaðgerðum, en bankinn hefur minnkað gjaldeyrisforðann sinn til þess að kaupa krónur tvisvar það sem af er ári, í fyrsta skipti síðan árið 2014. Að sögn Seðlabankans voru umræddar aðgerðir til þess að „stöðva keðjuverkun á markaðnum“.
Einnig segir að meginmarkmið gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans sé að vinna gegn óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónunnar. Þessar sveiflur hafi aukist, en nefndin telur aukninguna rekja til meiri fjármagnshreyfinga og aukinna væntinga um að krónan sé nær hátoppi.
Skýrslan er ein tveggja sem nefndin gefur til Alþingis á hverju ári, en í henni er rætt um störf nefndarinnar auk þess sem allar fundargerðir og opinber erindi eru birt.