Uppfært: Gengi evru gagnvart krónu hefur hækkað um 3,25% í dag og kostar hún nú 123,2 krónur, rétt fyrir lokun markaða.
Gengi krónunnar heldur áfram að lækka á háannatíma í ferðaþjónustunni, en evran er orðin jafndýr og hún var í byrjun apríl.
Evran kostar 120,8 , Bandaríkjadalur er í 106,0 og pundið í 136,8 , samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans í dag. Allir þrír gjaldmiðlar hafa hækkað í verði miðað við íslensku krónuna á undanförnum vikum eftir hraða styrkingu vikurnar þar á undan.
Gengi krónunnar gagnvart þessum þremur gjaldmiðlum hefur lækkað um 8-10% frá því í byrjun júní, en lækkunin hefur ekki verið jafnhröð á jafnskömmum tíma síðan árið 2015. Athyglisvert er að veikingin á sér stað á sama tíma og háannatími er í ferðaþjónustu, en gjaldeyrisinnstreymi frá þeim ætti að styrkja krónuna.