Miklar sveiflur hafa einkennt gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum undanfarna daga og vikur, en í gær veiktist krónan um tæplega þrjú prósent gagnvart evrunni. Í dag hefur krónan hins vegar styrkst um 2,26 prósent gagnvart evru og 1,96 prósent gagnvart Bandaríkjadal.
Evran kostar nú 122 krónur en Bandaríkjadalur 107 krónur.
Sé horft yfir undanfarinn mánuð þá hefur gengi krónunnar veikst um tæplega 8 prósent gagnvart evru og Bandaríkjadal. Þetta gerist á sama tíma og ferðaþjónustan er í algjörum hápunkti en júlí og ágúst eru stærstu mánuðirnir á hverju ári, þegar kemur að heimsóknum erlendra ferðamanna til landsins.
Forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, Stefán Broddi Guðjónsson, segir í viðtali við RÚV að töluverður titringur sé á mörkuðum vegna mikilla sveiflna á genginu.
Í sögulegu samhengi eru miklar sveiflur á genginu hins vegar þekktar, og eitthvað sem alltaf hefur verið hluti af íslenska hagkerfinu.
Styrking krónunnar, ekki síst vegna mikils uppgangs ferðaþjónustunnar, hefur verið hröð undanfarin ár, og nemur hún 12 til 13 prósentum að meðaltali, sé miðað við helstu viðskiptamyntir.