Verð á fjölbýli lækkaði lítið eitt á milli mánaðanna maí og júní, eða um 0,2 prósent. Þetta er fyrsta lækkunin sem mælist á fjölbýli í tvö ár.
Hækkun mældist þó á markaðnum þegar sérbýlið var tekið með í reikninginn um 0,2 prósent. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 4,3%, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 11,7% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 21,2%, samkvæmt tölum Þjóðskrár, sem er með því allra hæsta sem þekkist í þróuðum ríkjum.
Þessi lækkun á fjölbýli milli mánaða er fyrsta lækkunin sem mælist í tvö ár, en það mun koma í ljós á næstu mánuðum, hvort um einstaka mánaðarsveiflu er að ræða eða vísbendingu um að verðið hafi náð hæstu hæðum.
Húsnæðisauglýsingum hefur fjölgað undanfarin misseri, eins og Kjarninn greindi frá 3. júlí síðastliðinn, en það má meðal annars lesa út úr nýjustu hagvísum Seðlabanka Íslands.
Þrátt fyrir þetta er álitið að mikil vöntun sé á eignum inn á húsnæðismarkað, einkum litlum og meðalstórum, til að mæta mikilli eftirspurn á markaði. Talið er að jafnvægi geti skapast á næstu tveimur til þremur árum, með byggingu í það minnsta fjögur þúsund íbúða.