Samtök Iðnaðarins segja greinina hafa skapað 36% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2016 sem er litlu minni en hlutdeild ferðaþjónustunnar í fyrra. Þetta kemur fram á vef samtakanna í dag.
Samkvæmt frétt SI telja þau iðnað hafa átt stóran þátt í núverandi efnahagsuppsveiflu. Atvinnugreinin hafi skapað nær fjórðung allra starfa á síðustu sjö árum, en þannig hafi hún stuðlað að því að ná niður því mikla atvinnuleysi sem var eftir efnahagshrunið 2008. Einnig hafi iðnaðurinn lagt til um þriðjung hagvaxtarins í núverandi uppsveiflu.
Stærsta undirgrein iðnaðar er framleiðsluiðnaður án fiskvinnslu, en hún vó 8,4% af verðmætasköpun hagkerfisins í fyrra. Þar á eftir fylgdi byggingastarfsemi og mannvirkjagerð með 6,8% og svo starfsemi í rafmagns,-hita- og vatnsveitu með 5% af landsframleiðslu. Samanlagt nemur umfang iðnaðar af landsframleiðslu þó um 29%.
Í frétt SI var einnig talað um mikilvægi iðnaðar í sköpun gjaldeyristekna, en hann hafi skapað um 36% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins af útflutningi vöru og þjónustu í fyrra. Þannig er hlutur iðnaðar í gjaldeyrissköpun litlu minni en ferðaþjónustunnar, sem skapaði 39,3% gjaldeyristekna í fyrra.