Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að málflutningur Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, um að hafna beri íslensku krónunni, lýsi hans eigin skoðun og flokks hans, en ekki ríkisstjórnarinnar. Ekki standi til að skipta um gjaldmiðil.
Þetta kom fram í viðtali við Bjarna á RÚV í gærkvöldi. Hann segir að ekki standi til að skipta um gjaldmiðil, en verkefnisstjórn er nú að störfum, skipuð Ásgeiri Jónssyni, Illuga Gunnarssyni og Ásdísi Kristjánsdóttur, sem er að meta hvaða möguleikar eru fyrir hendi þegar kemur að endurskoðun peningastefnunnar.
Í grein Benedikts segir hann að íslenska krónan sé uppspretta óstöðugleika í hagkerfinu. „Sterk króna ógnar nú afkomu fyrirtækja sem græddu vel á veikri krónu fyrir fáeinum misserum. Störf í nýsköpun og þekkingariðnaði, sem áttu að tryggja fjölbreytni atvinnulífsins, streyma úr landi á ný. Krónan er hemill á heilbrigð viðskipti. Við almenningi blasir ólík mynd. Eftir hrunið var krónan lítils virði og kaupmáttur dvínaði. Nú er öldin önnur. Krónan hefur náð sömu hæðum og fyrir hrun og það er lítið mál að skjótast á fjarlæg heimshorn. Kaupmáttur hefur aukist mikið á Íslandi að undanförnu og verkefni næstu missera er að varðveita hann. Krónan leiðir til óstöðugleika, býr til sveiflur sem leiða til óábyrgra fjárfestingarákvarðana og óstöðugs kaupmáttar. Vextir eru og verða mun hærri á Íslandi en í viðmiðunarlöndum vegna óstöðugleika krónunnar. Þetta er ósanngjarnt og leiðir til óþarfa átaka í samfélaginu,“ segir Benedikt í grein sinni, sem birtist í Fréttablaðinu á Vísi í gær.
Benedikt segir að sumir „krónuvinir“ hafi talað um að það tæki Ísland áratugi að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evru, en raunin sé önnur núna. „Viðreisn var stofnuð til þess að stuðla að sátt og stöðugleika. Slíkur stöðugleiki næst aldrei nema með stöðugum gjaldmiðli sem stendur undir nafni og býður upp á svipaða vexti og í nágrannalöndum. Viðreisn bendir á myntráð til þess að festa gengi krónunnar. Mörg Evrópuríki hafa nýtt slíka lausn í áratugi, flest sem áfanga í því að taka upp evru. Eftir hrun töldu sumir krónuvinir að það tæki Íslendinga áratugi að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evru. Eina skilyrðið sem við föllum á núna er of háir vextir.“