Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn, sé kerfisflokkur sem hafi byggt upp það kerfi sem sé við lýði á Íslandi og standi á bremsunni gagnvart breytingum. Ef stjórnmálaflokkar ætli sér að breyta kerfinu sé erfitt að gera það í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta eigi líka að ákveðnu marki við um Framsóknarflokkinn, sem sé líka sá flokkur sem hafi byggt upp gildandi kerfi. Þetta kemur fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Í DV í dag. Hún steig af hinu pólitíska sviði árið 2009 og tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, ODIHR í Varsjá.
Ingibjörg Sólrún segir í viðtalinu að hún hafi kannski átt að hætta fyrr en hún gerði, en þegar hún steig af hinu pólitíska sviði hafði hún verið þátttakandi þar í 27 ár. Hún segir að fólk hafi tilhneigingu til að vera allt of lengi í pólitík. Setja þurfi mörk á það hvað stjórnmálamenn eru lengi í sömu stöðunni. „Ég held að það geti verið varhugavert fyrir samfélagið að menn líti á stjórnmál sem starfsgrein og jafnvel sem ævistarf. Það er ekki gott, eins og dæmin sanna.“
Hún segir það mistök að hafa farið í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki eftir kosningarnar 2007. Sú stjórn sat þegar hrun íslenska fjármálakerfisins átti sér stað í október 2008, og féll síðan snemma árs 2009. Ingibjörg Sólrún segir hins vegar að það hafi verið víðtækur stuðningur við þá ríkisstjórn, jafnt innan Samfylkingarinnar sem utan. „Það breytir ekki því að ég leiddi flokkinn inn í þessa stjórn. Mín mistök voru þau að ég leit svo á að það breytti öllu að búið var að skipta um karlinn í brúnni. Davíð Oddsson var farinn og Geir Haarde kominn í hans stað. Geir er mjög vænn maður, ég átti mjög gott samstarf við hann og mér þykir vænt um hann.
Vandinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn er kerfisflokkur. Hann hefur byggt upp þetta kerfi, á það og er mjög tregur til að breyta því. Það liggur í eðli flokksins að hann stendur á bremsunni gagnvart kerfisbreytingum. Ef stjórnmálaflokkar ætla sér að fara í umtalsverðar breytingar á kerfinu þá er ekki auðvelt að gera það með Sjálfstæðisflokknum. Þetta á svo sem ekki bara við um Sjálfstæðisflokkinn heldur líka að ákveðnu marki við Framsóknarflokkinn. Hann er líka flokkur sem hefur byggt upp þetta kerfi.“
Áttaði sig ekki á því að fjármálakerfið var komið að fótum fram
Ingibjörg Sólrún segir í viðtalinu við DV að þegar Samfylkingin hafi gengið inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 2007 hafi hún ekki áttað sig á því að fjármálakerfið, sem hafði verið einkavætt og þanist út í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, væri komið að fótum fram. Þessir flokkar hefðu sett rammann utan um kerfi sem reyndist síðan ekki halda. „Maður getur auðvitað verið vitur eftir á og sagt að það hafi verið ýmis teikn á lofti sem maður hefði átt að sjá. Því miður er það samt þannig að meðan allt virðist ganga vel, mikil umsvif eru í samfélaginu, tekjur opinberra aðila og einstaklinga eru miklar og vellaunuðum störfum fjölgar, þá er tilhneiging til að snúa blinda auganu að viðvörunarmerkjum. Líklega er yfirvofandi hætta sjaldan meiri en þegar allt virðist ganga vel. Að sumu leyti má segja að þetta sama sé að gerast núna. Það eru ákveðin hættumerki sem menn verða að taka alvarlega.“
Aðspurð um samband sitt við Davíð Oddsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra til margar ára og nú ritstjóra Morgunblaðsins, segir hún að hún geti alveg hitt Davíð vandræðalaust. „Allir hafa eitthvað til síns ágætis, það er enginn þannig að hann sé alslæmur eða algóður. Davíð hefur marga kosti sem einstaklingur en ég er óskaplega ósammála honum í pólitík. Fyrst og síðast er ég afskaplega ósammála þeim aðferðum sem hann beitir í stjórnmálum. Mér þykja þær ósvífnar.“
Einungis Ögmundur beðist afsökunar
Ingibjörg Sólrún var einn þeirra ráðherra sem Alþingi kaus um hvort að ætti að draga fyrir Landsdóm eða ekki. Á endanum var einungis meirihluti fyrir því að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Samt sem áður sögðu 29 þingmenn já við því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en 34 nei. Í viðtalinu við DV er hún spurð hvort að hún sé búin að fyrirgefa því fólki sem vildi ákæra hana fyrir Landsdómi. Hún segir að málið hafi verið gríðarlega sársaukafullt fyrir sig og það hafi tekið mjög langan tíma að jafna sig á því. Hún hafi glímt við alvarleg veikindi — hafði nýlega greinst með heilaæxli og þurfti að fara í erfiðar aðgerðir — á þessum tíma og ekki haft getu né löngun til að verjast þegar að henni var sótt. Hún geti hins vegar ekki dvalið við það sem gerist í pólitíkinni.
Ingibjörg Sólrún segir að einungis Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, hafi sett sig í samband við hana til að biðjast afsökunar á Landsdómsmálinu, en hann var á meðal þeirra 29 þingmanna sem kusu með því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu. „Sjálfsagt finnst mörgum að það sé engin ástæða til að biðjast afsökunar á landsdómsmálinu og gefa ekkert fyrir þá staðreynd að rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði ekki gerst sek um vanrækslu í starfi sem ráðherra. Í mínum huga er það ekki léttvægt og ýmsar grundvallarreglur réttarríkisins voru einfaldlega brotnar í meðferð þessa máls á Alþingi.“
Dagur farinn að nálgast það að hafa setið of lengi
Ingibjörg Sólrún var lengi borgarstjóri í Reykjavík, sat sem slíkur í alls níu ár. Hún segir að henni lítist vel á sitjandi meirihluta í borginni og að allar forsendur séu til staðar til að halda samstarfi þeirra áfram. Dagur B. Eggertsson, sitjandi borgarstjóri, sé ekki búinn að vera of lengi í pólitík en sé sjálfsagt farinn að nálgast það að sitja of lengi í sömu stöðu. „Ég myndi setja markið við átta ár í embætti eins og þessu. Ég held að fólk eigi ekki að sitja lengur. Ég var borgarstjóri í níu ár en fann að ég var búin með erindi mitt eftir átta ár, þó að atvikin höguðu því þannig að ég gat ekki farið fyrr.“
Flokkur Ingibjargar Sólrúnar, Samfylkingin, hefur ekki riðið feitum hesti frá undanförnum kosningum. Flokkurinn sem lengi vel var með um 30 prósent fylgi á landsvísu var nálægt því að þurrkast út í síðustu þingkosningum og náði einungis þremur þingmönnum inn. Formaðurinn fyrrverandi segir ekki vera í stöðu til þess að benda á hver vandi flokksins sé né hverjir sökudólgarnir fyrir hnignun flokksins eru. Hún sé búin að vera í útlöndum í mörg ár og slíkt myndi ekki gera flokknum neitt gagn.