Sitjandi ríkisstjórn er ekki fær um að falla vegna þess að hún stendur ekki fyrir neitt. Þetta segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem er skrifað á ábyrgð Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóra blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn leiðir þá ríkisstjórn sem nú situr undir forsæti Bjarna Benediktssonar.
Nær allar kannanir sem gerðar hafa verið síðan að ríkisstjórnin tók við völdum í janúar hafa sýnt hana kolfallna. Könnun Gallup sem birt var fyrr í vikunni var ekki undantekning frá því. Hún sýndi að ríkisstjórnin nyti einungis trausts 32,7 prósent kjósenda og að flokkarnir sem að henni standa – Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð — myndu aðeins ná inn 21 þingmanni á þing ef kosið yrði í dag, eða ellefu færri en í kosningunum í fyrrahaust. Ríkisstjórnin hefur sem stendur eins manns meirihluta á þingi.
Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins. 26,5 prósent segja að þeir myndu kjósa hann sem myndi þýða að flokkurinn fengi 18 þingmenn. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð, halda áfram að mælast með mjög lítið fylgi. Viðreisn myndi fá 5,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og rétt skríða inn á þing með þrjá þingmenn. Flokkurinn er með sjö þingmenn í dag. Staðan hjá Bjartri framtíð er enn verri. Einungis 3,7 prósent aðspurðra í könnun Gallup sögðust ætla að kjósa flokkinn. Það myndi þýða að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing en flokkurinn hefur nú fjóra þingmenn.
Þessi staða er tekin fyrir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í morgun. Þar segir að það sé dálítið skrýtið að ríkisstjórninni skuli refsað svo hart í mælingum í ljósi þess að við gerð stjórnarsáttmála hennar hafi einsett sér að gera helst ekki neitt. „Það er ekki auðvelt að benda á ríkisstjórn sem hefur fylgt sínum sáttmála betur eftir frá upphafi sínu. Það auðveldar henni staðfestuna að fátt er haldfast í þessum sáttmála ef frá er skilinn nokkuð ákveðinn rammi um það hvernig megi fjölga innflytjendum á Íslandi verulega á sem skemmstum tíma. Sú fjölgun hefur enda orðið svo mikil að meira að segja frú Merkel kynni að fara hjá sér. Það sem kemst næst því að hafa eitthvert hald í þessum undarlega sáttmála er að gefið er til kynna að ríkisstjórnin stefni að því að setja Evrópumál í upplausn þegar lok kjörtímabils nálgast. Þessi leiðarvísir er að vísu mjög þokukenndur en helst er að skilja að það uppnám sem sáttmáli ríkisstjórnarinnar boðar verði ekki á sameiginlega ábyrgð hennar! Einhverjir eru í spyrja sig og aðra, með hliðsjón af fallandi stuðningi, hvort þessi ríkisstjórn sé við það að falla. En það er með öllu óvíst að hún sé fær um það. Ríkisstjórn, sem samkvæmt sameiginlegum sáttmála sínum stendur ekki fyrir neitt, á ekki auðvelt að finna sér mál til að falla á. Meira að segja þegar hún mætir með sín allra vitlausustu mál fyrir þingið mun stjórnarandstaðan taka þeim fagnandi. Ríkisstjórn sem telur að það bendi til þess að hún sé á réttri leið hefur týnt áttavitanum sem hún fékk í fermingargjöf.“