Ebba Schram, sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti fyrr í dag að ráð í starf borgarlögmanns, var metin hæfasti umsækjandinn um starfið af ráðningarnefnd. Einn annar sótti um það, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður. Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði, Líf Magneudóttir, sat hjá við afgreiðslu málsins. Það gerðu Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins einnig. Ráðning Ebbu var því staðfest með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata, sem sitja í meirihluta í borginni með Vinstri grænum, og atkvæði fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjargar B. Sveinbjörnsdóttur, sem er í minnihluta ásamt Sjálfstæðisflokknum. Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðsfundar sem fram fór í dag.
Því var ákvörðunin um að ráða Ebbu, sem er hæstaréttarlögmaður og staðgengill borgarlögmanns, ekki tekin eftir meirihluta- og minnihlutalínum í borgarráði.
Ebba hæfasti umsækjandinn
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram tillögu um að ráða Ebbu í starf borgarlögmanns. Í tillögunni kemur fram að starfið hafi verið auglýst 17. júní síðastliðinn og að tveir hafi sótt um það áður en að umsóknarfrestur rann út 3. júlí. Skipuð var ráðningarnefnd sem í sátu Dagur, Ragnhildur Ísaksdóttir starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og Stefán Eiríksson borgarritari.
Umsóknir voru yfirfarnar af ráðningarnefndinni og ráðgjafa úr mannauðsdeild Ráðhussins og umsækjendur svo boðaðir í viðtal 12. júlí þar sem þeir fengu báðir sömu spurningar. Í tillögunni sem Dagur lagði fyrir borgarráð í dag til samþykktar segir: Að teknu tilliti til menntunar og reynslu sem metin var af fyrirliggjandi umsóknargögnum, í starfsviðtölum og með öflun umsagna var Ebba Schram metin hæfasti umsækjandinn í starf borgarlögmanns.“
Meirihlutinn ekki einróma
Áður en kosið var um ráðningu Ebbu lagði borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að ráðningarferlið yrði endurskoðað og staðan auglýst að nýju. Það væri tilhlýðilegt í „ljósi óvandaðrar málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar ráðningar borgarlögmanns.“ Tillögunni var vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa meirihlutans.
Því næst var kosið um tillögu um að borgarráð myndi ráða Ebbu Schram í starf borgarlögmanns. Sú tillaga var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Því liggur fyrir að meirihlutinn í borgarstjórn var ekki einróma í samþykkt sinni á ráðningu nýs borgarlögmanns. Vinstri græn studdu ekki ráðninguna.