Aðeins 40% Íslendinga telja sig hafa aðgengi að húsnæði á viðráðanlegum kjörum á meðan 76% Dana telja sig gera það. Þessar niðurstöður stinga í stúf við verð á húsnæðismarkaði í löndunum tveimur í hlutfalli við laun, en kostnaðarbyrði íbúðarhúsnæðis er töluvert hærri í Danmörku. Þetta kemur fram í nýbirtum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.
Samkvæmt greiningardeildinni hefur hlutfall Íslendinga sem telja sig hafa aðgengi að húsnæði á viðráðanlegum kjörum fækkað nokkuð á síðustu tveimur árum, eða úr 46% niður í 40%. Á sama tíma hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað hratt, en frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 28%. Hækkunin í Danmörku hefur ekki verið jafnhröð, en á sama tímabili hefur íbúðarhúsnæði þar í landi hækkað um 18% að raunvirði.
Hvers vegna í ósköpunum svona ligeglad?
Hins vegar blasir önnur mynd við þegar íbúðarverð í hlutfalli við laun er borið saman í löndunum tveimur. Þar hefur kostnaðarbyrði íbúða í Danmörku aukist um rúm 20% frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2014 á meðan hún hefur aukist um rúm 10%. Skuldir danskra heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru einnig mun hærri en hjá íslenskum heimilum, ef marka má tveggja ára tölur frá Seðlabanka Íslands.
Ef litið er á hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað kemur Danmörk einnig mun verr út en Ísland og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Samkvæmt OECD voru um 50% danskra heimila sem tilheyrðu tekjulægsta fimmtungnum með íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við 30% á Íslandi árið 2015. Þótt munurinn sé mikill áréttar greiningardeildin að erfitt sé að leggja of mikið traust á tveggja ára gamlar tölur, staðan gæti verið um margt öðruvísi núna.
Greiningardeildin furðar sig á stöðunni, en í greininingunni segir: „Hvers vegna í ósköpunum eru skuldum vafðir Danir þá svona ligeglade þegar kemur á húsnæðismarkaðnum?“ Svo virðist sem svör við þeirri spurningu séu ekki að finna í hefðbundnum mælikvörðum um skuldsetningu og húsnæðiskostnað heimilanna heldur virðast aðrir þættir ráða ferðinni, samkvæmt greiningunni.