Meirihluti nefndarmanna í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gekk út af fundi í morgun þegar þeim var gefin nöfn þeirra sem skrifuðu undir meðmæli þess efnis að Robert Downey yrði veitt uppreist æru. Enn fremur lýsti Birgitta Jónsdóttir yfir vantrausti gegn Brynjari Níelssyni, formanni nefndarinnar. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Samkvæmt fréttinni fengu nefndarmenn upplýsingar um meðmælendur veitingar uppreisnar æru fyrir Robert Downey á fundinum í dag. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist ekki hafa heimild til að gefa þau upp, en skorar hins vegar á alla meðmælendur til að stíga fram og gefa út sameiginlega yfirlýsingu.
Að sögn Birgittu gekk meirihluti nefndarmanna út úr miðjum fundi þegar umrædd gögn voru birt, „væntanlega af ótta við að þau gætu ekki staðist að brjóta ekki trúnað.“ Hún segist ætla að kalla eftir áliti lögmanns Alþingis og forsætisnefndar hvort þau geti setið á funum þar sem rætt verður við ráðuneytið um spurningar sem vakna við lestur bréfanna.
Að fundi loknum sagði Birgitta um Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann nefndarinnar: „Ég lýsi yfir algjöru vantrausti á hann sem formann þessarar nefndar. Mér finnst hann hafa stýrt þessu máli í afar mikinn skurð og raun allt í kringum fundinn með Ólafi Ólafssyni var mjög til vans. Hann virðist ekki átta sig á sinni stöðu sem formaður nefndarinnar, eins og hann tjáir sig í fjölmiðlum.“