Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Viðreisnar, ætlar að óska eftir því að fá öll gögn um mál Roberts Downey afhent á næsta fundi nefndarinnar. Hann segist ekki hafa getað sótt fund nefndarinnar í gær, þegar allir nefndarmenn stjórnarflokkanna gengu af fundi þegar gögn um þá sem veittu meðmæli fyrir því að Robert Downey fengi uppreist æru voru lögð fram. Þess í stað muni hann óska eftir því á næsta fundi nefndarinnar að fá „ðgang að öllum gögnum málsins og kynna mér þau til hlítar. Þannig tel ég mig, að vel ígrunduðu máli, best fá fast land undir fætur til frekari umfjöllunar um málið.“
Í stöðuuppfærslu í dag segir Jón Steindór að þingmenn Viðreisnar muni ekki láta sitt eftir liggja við að taka reglur um uppreist æru til heildarendurskoðunar og færa til nútímahorfs. „Það verkefni ætti að geta unnist hratt og vel í góðri sátt á Alþingi enda málið ekki í eðli sínu þannig að flokkapólitík eigi að tefja fyrir. „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hefur haft þessi mál til skoðunar af gefnu tilefni sem er mál Róberts Downey. Sjálfur sit ég í þeirri nefnd en gat ekki sótt síðasta fund. Af fréttum að dæma og þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér fór sá fundur ekki eins og best verður á kosið og er það miður. Málið má ekki detta í farveg pólitískra skylminga og deilna sem færir umræðuna frá kjarna máls. Þeir sem líða vegna brota Róberts og annarra af svipuðu sauðahúsi eiga það ekki skilið.“
Meirihluti nefndarmanna í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gekk út af fundi í gærmorgun þegar þeim var gefin nöfn þeirra sem skrifuðu undir meðmæli þess efnis að Robert Downey yrði veitt uppreist æru. Um var að ræða alla almenna nefndarmenn stjórnarmeirihlutans. Í kjölfarið lýsti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, yfir vantrausti á Brynjar Níelsson, formann nefndarinnar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, tjáði sig líka um málið í morgun. Í stöðuuppfærslu a Facebook sagði hann uppákoman í nefndinni, þegar nefndarmenn stjórnarflokka gengu út, hefði virkað„furðuleg“. „ Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram . Það flækir og gerir erfitt fyrir því að ná saman um góð og bætt vinnubrögð. Ef ekki er þörf á að kynna sér mál í nefnd má óska eftir frávísun eða frestun. Við þurfum að vanda okkur þegar við fjöllum um viðkvæm mál. Mannréttindi eru ekki flokkspólitísk í eðli sínu heldur verkefni allra sem starfa í stjórnmálum. Það er margt ófullkomið og sumt getur verið erfitt í framkvæmd en það er engin afsökun fyrir því að ganga ekki til verks og ganga til góðs. Þá er borðleggjandi að leggja af þessar fáranlegu reglur sem gefa í skyn að æra sé eitthvað sem sé á færi opinbera aðila að möndla með eða reisa við.“ Björt framtíð á ekki fulltrúa í nefndinni.