Viðskiptaráð Íslands leggur til að minnka umfang auðlinda í útflutningi landsins, en ráðið telur það nauðsynlegt til þess að auka framleiðni og alþjóðlega samkeppnishæfni til langs tíma. Þetta kemur fram í skýrslu ráðsins um íslenska hagkerfið.
Í skýrslunni, sem birt var í gær, var farið yfir stjórnmála- og efnahagsástandið á Íslandi og þróun þess frá fjármálahruninu. Ein af niðurstöðum skýrslunnar var sú að skammtímahorfur væru góðar á Íslandi, en óvíst væri um efnahagsástandið til langs tíma.
Samkvæmt skýrslunni mun hagvöxtur til langs tíma fyrst og fremst ráðast af tveimur þáttum: Í fyrsta lagi hvort framleiðni muni aukast nóg til að halda uppi hagvexti, en í öðru lagi hvort framleiðsla muni ná að breytast í takti við mikla uppstokkun í heimshagkerfinu.
Ráðið vísaði í McKinsley-skýrsluna svokölluðu sem kom út árið 2012, en í henni kom fram að helsti veikleiki íslenska vinnumarkaðarins væri lág framleiðni vinnuafls.
Meiri framleiðni
Samkvæmt Viðskiptaráði er framleiðni enn of lág þrátt fyrir mikinn efnahagsvöxt á síðustu árum, en hún þurfi nauðsynlega að aukast til þess að landið fái að njóta sjálfbæran hagvöxt til langs tíma. Ráðið leggur fram nokkrar tillögur til þess að stuðla að framleiðniaukningu, þar á meðal opnun markaða fyrir erlendum fyrirtækjum, umbótum í opinbera geiranum og minni áherslu á vinnsla á auðlindum, svo sem fiski, ferðamennsku og áli, í hagkerfinu.
Viðskiptaráð fagnar afléttingu gjaldeyrishafta og segir hana mikilvægt skref í að opna hagkerfið fyrir erlendri samkeppni. Einnig stendur í skýrslunni að aflétting haftanna stuðli að því að íslenska hagkerfið leggi meiri áherslu á hugvitsstarfsemi í alþjóðaviðskiptum sínum, en það hafi verið ein af ráðleggingum McKinsey-skýrslunnar árið 2012.
Alda breytinga
Einnig bætir Viðskiptaráð við að aukin alþjóðavæðing valdi því að Ísland sé viðkvæmari gagnvart alþjóðlegum straumum og hræringum á heimsmarkaði. Samkvæmt skýrslunni þarf Ísland að nýta sér þessa „öldu breytinga“ til þess að styðja við sjálfbærni og arðsemi í framtíðinni.
Þeir þættir sem ráðið ráðleggur íslenska hagkerfinu á að einbeita sér að eru sjálfvirknivæðing í efnahagslífinu, áhersla á nýsköpun og annars konar hugvitsstarfsemi í útflutningi, náttúruvernd og opnun hagkerfisins með skattalækkunum og einföldun regluverks.