Björn Valur Gíslason, sem verið hefur varaformaður Vinstri grænna frá því í febrúar 2013, hefur ákveðið að hætta sem slíkur. Frá þessu greinir hann á vefsíðu sinni. Björn Valur var síðast endurkjörinn varaformaður á landsfundi Vinstri grænna í október 2015.
Nýr varaformaður verður kosinn á landsfundi flokksins sem haldinn verður í Reykjavík 6-8. október næstkomandi. Björn Valur ætlar ekki að vera í framboði þar.
Vinstri græn munu halda flokksráðsfund á morgun laugardag þar sem línur verða lagðar fyrir stjórnmálaveturinn framundan og fjallað sérstaklega um sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara í maí 2018.
í yfirlýsingu sem Björn Valur birtir á heimasíðu sinni segir:
„Forystuskipti urðu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun 2013 er Katrín Jakobsdóttir var kjörin formaður. Á sama tíma var ég kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hef gegnt því embætti síðan. Frá þeim tíma hefur hreyfingin styrkt stöðu sína verulega og eru Vinstri græn í dag helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Er það ekki síst að þakka traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.
Um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hreyfingarinnar verður haldinn helgina 6. til 8. október næstkomandi. Á þessum tímapunkti tel ég rétt að lýsa því yfir að ég mun ekki gefa kost á mér til varaformennsku á komandi landsfundi.“