Eina erindi sitjandi ríkisstjórnar er að viðhalda hægrisinnaðri efnahagsstjórn, hægrisinnaðri skattastefnu og hægrisinnuðum viðhorfum í ríkisrekstri þar sem áhersla er lögð á sveltistefnu og einkarekstur. Það er límið sem heldur ríkisstjórninni saman og um annað er hún ósammála. Engar aðgerðir fylgi greinum og yfirlýsingum kerfisbreytingaflokkanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn afgreiðir gagnrýni þeirra sem „skoðanir fólks úti í bæ.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á flokksráðsfundi flokksins í morgun.
Katrín sagði að kerfisbreytingar hefðu vikið hjá Viðreisn og Bjartri framtíð fyrir viljanum til valda. „Gjaldið sem þjóðin greiðir er ríkisstjórn sem nennir ekki að vera til, nennir ekki að funda og nennir ekki að koma sér saman um neina framtíðarsýn. Á meðan ríkir biðstaða í ýmsum mikilvægum málaflokkum á tíma þar sem við ættum að vera að grípa til aðgerða í efnahagsmálum, tryggja undirstöður velferðarsamfélagsins og styrkja atvinnulífið til að byggja sig upp með sjálfbærum hætti.“
Fátæku fólki og hælisleitendum stillt upp sem andstæðingum
Í ræðu sinni fjallaði Katrín einnig um uppgang þjóðernissinna og nýnasista og sagði að baráttan gegn kúgun á svörtu fólki í Bandaríkjunum, undir yfirskriftinni Svört lif skipta máli, hafi magnað upp viðbrögð hvítra kynþáttahatara eins og sjá hefði mátt í Charlottesville um síðustu helgi. „Og Bandaríkjaforseti reyndist ófær um að gagnrýna þessa framgöngu sem engum þarf að koma á óvart: hann var jú kosinn meðal annars með því að virkja reiði einmitt þessa hóps. Það er sorglegt að kynþáttahyggjan sem mannkynið færði miklar fórnir til að berjast gegn á 20. öldinni hefur færst í vöxt.
Við höfum horft á uppgang öfgahreyfinga sem ala á ótta við útlendinga og ólíka menningarheima á Vesturlöndum undanfarin ár. Stuðningur við stjórnmálahreyfingar sem ala á þessu hefur einnig vaxið. Þetta er þróun sem við verðum að horfast í augu við þetta og átta okkur á því hvað veldur. Ekki bara við sem hreyfing heldur allt samfélagið.“
Hún sagði að hérlendis mætti sjá sömu orðræðu þar sem reynt hafi verið að stilla upp fátæku fólki og hælisleitendum sem andstæðingum sem berjist um þær krónur sem eru til í kassanum. Sumir stjórnmálamenn kjósi að gera mikið úr kostnaði við að taka á móti hælisleitendum og flóttamönnum í stað þess að ræða um ójöfnuðinn í samfélaginu þar sem ríkustu tíu prósentin eigi þrjá fjórðu alls auðs og ríkasta eina prósentið eigi um fjórðung. „Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi og nú er svo komið að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því. Slíkt ástand skapar tortryggni og vantraust hjá almenningi gagnvart því skipulagi sem samfélög okkar byggja og skapar jarðveg fyrir öfgahreyfingar. Þessar öfgahreyfingar nýta sér þetta óöryggi og reyna að telja fólki trú um að þær geti séu betur til þess fallnar að bæta kjör almennings en stjórnmálahreyfingar sem leggja áherslu á opin og frjáls lýðræðissamfélög.“
Skattbyrði létt af ríkasta fólkinu
Katrín fór yfir stefnu Vinstri grænna í skattamálum og sagði að það þyrfti að þora að forgangsraða í þágu almennings. Það hafði flokkur hennar gert með tillögum um hóflegan auðlegðarskatt, þrepaskiptan fjárnagnstekjuskatt, auðlindagjöld og hátekjuskatt. Þær tillögur hafi hins vegar ekki fengið hljómgrunn hjá þeim flokkum sem mynduðu síðar ríkisstjórn þrátt fyrir að þær snúist um að gera skattbyrðina réttlátari og létta um leið sköttum af fátækasta fólkinu á Íslandi eins og hægt væri. „Allar skattbreytingar síðustu ríkisstjórnar miðuðu í öfuga átt, í þá átt að létta skattbyrðinni af ríkasta fólkinu og auka hana á tekjulægri hópa, t.d. með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli.
Núverandi ríkisstjórn heldur uppteknum hætti, lækkar skatta í miðri þenslu og rekur sveltistefnu í almannaþjónustu. Af hverju? Jú, þegar opinber þjónusta á undir högg að sækja er auðveldara að tala fyrir einkarekstri, að færa almannagæðin í hendur hinna fáu sem geta hagnast. “