Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, ætlar að bjóða sig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins sem fram fer í október. Þá hafa ýmsir komið að mál ivið Óla Halldórsson, sveitarstjórnarmann í Norðurþingi og varaþingmann, um að sækjast eftir embættinu og hann er að skoða málið. Þeir eru báðir úr Norðausturkjördæmi, sama kjördæmi og fráfarandi varaformaður flokksins og heimakjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, sem var formaður Vinstri grænna um árabil. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Björn Valur Gíslason, sem verið hefur varaformaður Vinstri grænna frá því í febrúar 2013, tilkynnti á föstudag að hann myndi hætta sem slíkur. Björn Valur var síðast endurkjörinn varaformaður á landsfundi Vinstri grænna í október 2015. Nýr varaformaður verður kosinn á landsfundi flokksins sem haldinn verður í Reykjavík 6-8. október næstkomandi. Björn Valur ætlar ekki að vera í framboði þar.
Í Fréttablaðinu er greint frá því að það hafi ekki komið fólki innan Vinstri grænna á óvart að Björn Valur væri að hætta. Hann hefði verið mikið fjarverandi að undanförnu og samkvæmt heimildum blaðsins hefði Reykjavíkurarmur flokksins „fengið nóg af Birni fyrir þó nokkru og það hafi verið gagnkvæmt“.Þá hafi hótun Björns Vals um að kæra gjaldkera Vinstri grænna, Unu Hildardóttur, fyrir hatursorðræðu ekki farið vel í suma flokksmenn. Una hafði sett stöðuuppfærslu á Twitter þann 13. janúar síðastliðinn þar sem stóð: „Ég hata miðalda karlmenn“. Í Fréttablaðinu er einnig nefnt að stefna Björn Vals í ýmsum málum hafi verið á skjön við stefnu flokksins og ekki þótt hæfa að varaformaður flokks sem leggur áherslu á umhverfisvernd hafi starfað við að þjónusta olíuborpalla.