Þrír félagar í stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, segja að formaður félagsins, Gísli Kr. Björnsson, hafi brotið trúnað gegn nokkrum félögum í Verði og segja sorglegt að verða vitni að þeim vinnubrögðum sem hluti stjórnar fulltrúaráðsins í Reykjavík hafi stundað. Þaðu hafi stuðlað að „tortryggni og óþarfa átökum í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðsmanna.“ Þetta kemur fram í grein á Vísi sem félagarnir þrír, Arndís Kristjánsdóttir, Eiríkur Ingvarsson og Halldór Ingi Pálsson, skrifa.
Kjarninn greindi frá því í morgun að níu formenn félaga Sjálfstæðisflokksins lýsi yfir stuðningi við tillögu Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, um svonefnda blandaða prófkjörsleið fyrir framboðslista flokksins í borginni fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík geta því allir tekið þátt og haft áhrif á val á næsta leiðtoga flokksins í borginni. Uppstillingarnefnd, kjörin af fulltrúaráði flokksins, velur síðan fulltrúa í önnur sæti á lista, að því er segir i tilkynningu frá formönnunum níu.
Í grein sinni í dag gagnrýna þremenningarnir aðferðarfræðina sem beitt var við að setja leiðtogaprófkjörið á dagskrá harðlega. Þar segir að ekkert hafi bent til þess að stjórn Varðar hefði ætlað að fjalla um val á lista á fundi sem fram fór 9. ágúst síðastliðinn. Engin dagskrá hefði verið send fundarmönnum né hafi þeir verið upplýstir á annan hátt að til stæði að fjalla um slík mál. Þrátt fyrir þessa annmarka á fundarsköpum hafi formaður Varðar að afgreiða umræðu og atkvæðagreiðslu um leiðtogaprófkjör á einum og sama fundinum.
Þremenningarnir, sem eru allir stjórnarmenn í Verði, voru á meðal þeirra sem sátu ekki fundinn og brá illilega þegar niðurstaða hans lá fyrir. „Til að gefa öllum stjórnarmönnum tækifæri til að kynna sér tillöguna hafði þó verið ákveðinn fundur stuttu síðar. Því var hins vegar breytt með tölvupósti frá tillöguflytjendum þar sem stjórnarmenn voru hvattir til að hafna því að annar stjórnarfundur yrði haldinn. Í kjölfar þessa komu nokkrir félagar í Verði á framfæri efasemdum um leiðtogaprófkjör í fjölmiðlum og vefmiðlum. Viðbrögð formanns Varðar voru þau að ráðast gegn þessum aðilum með því að skella fram á opinberum vettvangi fullyrðingum þar sem rekja mátti hvernig einstaka stjórnarmenn hefðu hagað málflutningi og atkvæðagreiðslu á umræddum stjórnarfundi Varðar. Háttsemi formanns Varðar var augljóst brot á trúnaði við þá stjórnarmenn fyrir utan að formaðurinn fór ekki með rétt mál í öllum tilvikum.“
Í grein sinni segja þeir að tillögunni um leiðtogaprófkjör fylgi margir óvissuþættir og því sé nauðsynlegt að skoða tillöguna betur áður en endanleg ákvörðun sé tekin. „Það er sorglegt að verða vitni að þeim vinnubrögðum hluta stjórnar fulltrúaráðsins í Reykjavík sem hafa stuðlað að tortryggni og óþarfa átökum í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðsmanna.“