Theodóra S. Þorsteinsdóttir, einn fjögurra þingmanna Bjartrar framtíðar, ætlar að segja af sér þingmennsku um komandi áramót. Þá verður hún einungis búin að sitja sem þingmaður í rúmt ár. Hújn ætlar að einbeita sér að störfum sínum sem oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi, þar sem flokkurinn er í sveitastjórn. Karólína Helga Símonardóttir, tekur sæti Theodóru á Alþingi. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Kópavogsblaðinu.
Sveitastjórnarkosningar fara fram í lok maí næstkomandi. Flokkur Theodóru, Björt framtíð, situr í ríkisstjórn.
Í viðtalinu segir Theodóra: „Þingstörfin hafa komið mér á óvart og snúast ekki, ólíkt störfum í sveitarfélaginu, um stefnumótun og framkvæmd verkefna. Þau eru meira eins og málstofa. Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur. Reyndar geta þingmenn óskað umræðu um allt á milli himins og jarðar. Oft er sú umræða á flokkspólitískum nótum, sett upp til að berja sér á brjóst eða berja á pólitískum andstæðingum. Það hentar mér ekki enda leiða þær sjaldnast til nokkurrar niðurstöðu.“
Aðspurð hvað valdi því að hún hætti ekki strax, í ljósi þess að ákvörðun um að hætta liggi fyrir, segir Theodóra að hún vilji ljúka ákveðnum verkefnum áður en hún stigi til hliðar. „Þrátt fyrir að níu ár séu liðin frá efnahagshruninu blasa við okkur mýmörg dæmi um mistök sem við gerðum við endurreisn og uppbyggingu. Fjármálastofnanir eru nú að segja fólki upp leigu á húsnæði sem það átti áður. Bankarnir hirtu það í hruninu og skilja fólk eftir á götunni. Enn er verið að hirða eignir af fólki. Ég stóð sjálf frammi fyrir því að þurfa að höfða mál gegn Landsbankanum til að sækja rétt minn og í því máli komu í ljós ótrúlega óbilgjörn vinnubrögð banka sem er í eigu okkar allra og í raun var þar um að ræða refsiverð skilasvik. Ég hef enga trú á að það sé einsdæmi. Mig langar að leggja mín lóð á vogarskálarnar til að reyna að byggja hér manneskjulegra samfélag. Ekki til að benda á hverjum um er að kenna heldur til að beina sjónum að því hvað við getum gert betur. Ég verð ekki búin að því fyrir jól en ég á lóð sem ég held að skipti máli og ég þarf svigrúm til að leggja þau fram.“