Óli Halldórsson, sveitastjórnarmaður í Norðurþingi og varaþingmaður Vinstri grænna, hefur tilkynnt um framboð sitt til varaformanns Vinstri grænna á komandi landsfundi flokksins, sem fer fram í október. Því eru komin fram tvö framboð í embættið, en Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, hafði þegar tilkynnt um framboð.
Í tilkynningu frá Óla segir að hann muni nota næstu vikur til að kynna fyrir félögum í flokknum og almenningi pólitísk stefnumið sín. „Mikill hljómgrunnur er í samfélaginu fyrir skýrum áherslum Vinstri grænna og hefur hreyfingin fest sig í sessi sem eitt öflugasta stjórnmálaafl á Íslandi. Nú er lag til frekari sóknar fyrir hreyfinguna. Næsta vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og er mikilvægt að flokkurinn nýti þau sóknarfæri sem hann hefur. Þá er einnig eðlilegt að í forystu flokksins veljist fólk með sæti í sveitarstjórn til að liðsinna við undirbúning kosninganna.“
Björn Valur Gíslason, sem verið hefur varaformaður Vinstri grænna frá því í febrúar 2013, tilkynnti fyrr í ágúst að hann myndi hætta sem slíkur. Björn Valur var síðast endurkjörinn varaformaður á landsfundi Vinstri grænna í október 2015. Nýr varaformaður verður kosinn á landsfundi flokksins sem haldinn verður í Reykjavík 6-8. október næstkomandi. Björn Valur ætlar ekki að vera í framboði þar.