„Tillögur landbúnaðarráðherra er tilviljunarkennt skot út í loftið og sýnir hve óvönduð vinnubrögðin eru. Skotið virðist hafa hitt unga bændur sem er ákkúrat það fólk sem við viljum ekki missa úr greininni.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Facebooksíðu sinni og vísar til aðgerða sem stjórnvöld hafa boðað, vegna vanda sauðfjárbænda.
Málið var til umræðu í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í gærkvöldið, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var gestur þáttarins.Gömlu leiðirnar til að takast á við vanda sauðfjárbænda, útflutningsskylda og stórtæk uppkaup á birgðavanda, bitna á neytendum og halda uppi verði innanlands. Þær þjóna hvorki bændum né neytendum. Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í fyrsta þætti Kjarnans á Hringbraut þennan veturinn. Þátturinn er á dagskrá í kvöld.
Hún ræddi um nýframlagðar tillögur sínar til að mæta vanda sauðfjárbænda, sem munu kosta 650 milljónir króna til viðbótar við þá fimm milljarða króna sem þeir fá í beingreiðslur samkvæmt fjárlögum og þær 100 milljónir króna sem þeir fengu á fjáraukalögum til að auka markaðsstarf.
Þorgerður sagði í þættinum að ef fyrirsagnir fjölmiðla aftur til ársins 1985 séu skoðaðar þá séu þær allar eins varðandi stöðu sauðfjárbænda. Framleiðsla sé of mikil og til að mæta henni sé áhersla lögð á að taka upp eða auka útflutningsskyldu eða að ríkissjóður ráðist í stórtæk uppkaup á umframbirgðum. „Birgðavandinn í dag virðist vera svona svipaður og hefur verið undanfarin tvö þrjú ár. Þá skulum við gefa okkur tíma og gera þetta rétt, þannig að við lendum ekki alltaf í sama gamla farinu. Það þjónar ekki bændum og það þjónar ekki neytendum,“ sagði Þorgerður Katrín.
Sigurður Ingi gagnrýnir ráðherra, og segir skorta greiningar til að takast á við vandann. „Engin greining liggur fyrir um hvar í samfélaginu á að fækka eða hve margir munu hugsanlega nýta sér þetta tilboð. Markmið um að draga 20% úr framleiðslu er orðið að 20% fækkun bænda!! Á hvaða vegferð er ráðherra sauðfjárræktar? Er ætlunin að drepa niður sauðfjárframleiðslu, matvælaframleiðslu í landinu og leggja niður tugþúsundir starfa?“ segir Sigurður Ingi.