Að undanförnu hafa sést einkenni þess að tekið sé að hægja á hækkun fasteignaverðs eftir langt og mikið hækkunartímabil á árunum 2012 og fram á þetta ár.
Hækkanir á fasteignaverði eru nú ekki eins miklar og þær voru á síðasta ári, en áframhald er þó á hækkunum og eftirspurn mikil, í sögulegu samhengi. Árshækkunin í júlí mældist tæplega 20 prósent miðað við sama tímabil árið á undan.
Í skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs segir að nokkuð hafi slitnað á milli að undanförnu í þróun fasteignaverðs við ýmsar undirliggjandi hagstærðir sem til lengri tíma litið eiga það til að fylgjast að.
Má þar meðal annars nefna að á meðan fasteignaverð hækkaði um 24 prósent þá hækkaði vísitala byggingakostnaðar um 1,1 prósent, og þá hefur hækkun fasteignaverðs enn fremur verið hraðari en vísitala kaupmáttar launa.
Frá júlí 2016 til júlí 2017 hefur leiguverð hækkað um tólf prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Á sama tíma hækkaði kaupverð á fjölbýli um 19 prósent og laun um 7 prósent samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá og Hagstofunni.
Á síðastliðnu ári hækkaði leiguverð um 7 prósentustigum hraðar en laun, „sem er nokkuð skörp breyting frá þóuninni árin á undan“ að því er segir í skýrslu hagdeildar.
Reiknuð ávöxtun af útleigu íbúða sem Þjóðskrá Íslands heldur utan um hefur almennt farið lækkandi á undanförnum tveimur árum, samhliða hröðum verðhækkunum á kauphliðinni, segir enn fremur í skýrslunni. „Þessi neikvæða þróun fyrir þá sem eru á leigumarkaði ýtir enn frekar undir þörf fyrir óhagnaðardrifið kerfi sem býður fólki upp á langtímaleigu í öruggu húsnæði hvernig sem aðstæður markaðarins eru þá stundina,“ segir í skýrslunni.