Í svari Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, kemur fram að stór hluti upplýsingana sem fyrirspurnin beinist falli undir bankaleynd og því verði ekki veittar neinar upplýsingar um þær. „Stór hluti þeirra upplýsinga sem fyrirspurnin beinist að eru bæði þess eðlis og efnis að þær varða hagi viðskiptamanna ESÍ og dótturfélaga þess (og þar með Seðlabanka Íslands) og ekki síður málefni bankans sjálfs. Þar af leiðandi teljast þær ekki til opinberra upplýsinga og um þær ríkir þagnarskylda,“ segir í svarinu.
Svar Bjarna við fyrirspurn Sigurðar Inga var birt á vef Alþingis í gær.
Fyrirspurnin var ítarleg, og lögð fram í sex liðum. Umfang eigna og krafna sem ESÍ átti eftir hrunið var mikið, en samkvæmt svarinu var það 490 milljarðar króna árið 2009 en talan var komin niður í 42,7 milljarða í árslok 2016.
Meðal þess sem spurt var um, var hversu margar eignir/kröfu Seðlabanki Íslands hafi selt, „beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?“
Þá spurði Sigurður Ingi einnig út í það í hvaða tilvikum bankinn hefði eða dótturfélag hans hefði lánað fyrir kaupum og hvernig hefði verið staðið að því. Svo sem hvernig skilmálar hefðu verið, lánahlutföll og hvaða ástæður hefðu legið að baki viðskiptunum.
Þá beindist fyrirspurnin einnig að sérfræðiþjónustu. „Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?“
Í svari Bjarna kemur fram að ekki sé hægt að upplýsa um það, hvaða aðilar það hafi verið sem hafi sinnt þjónustu fyrir Seðlabankann. Er vísað til þagnarskyldu í því samhengi, en nákvæmlega er þó ekki farið út í það. „Upplýsingar um hvaða sérfræðinga hefur verið leitað til, hversu mikið þeir hafa fengið greitt fyrir sérfræðiþjónustu sína og skilmála ráðningarsamninga að öðru leyti getur Seðlabanki Íslands ekki veitt með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu, sbr. framangreint,“ segir í svari Bjarna.
Sigurður Ingi spurði einnig út í sölu á eignum og kröfum, og hvort þær eignir hefðu í öllum tilfellum verið auglýstar. Í svari Bjarna er því ekki svarað afdráttarlaust, en sagt að meginreglan hefði verið sú að reyna að hámarka endurheimtur. „Almennt hafa ESÍ og dótturfélög þess auglýst þær eignir til sölu sem stafa frá bankahruninu. Hér má þó benda á að sala skuldabréfa til Íbúðalánasjóðs sem fjallað var um í 1. tölul. var niðurstaða beinna viðræðna sjóðsins og ESÍ að undangengnu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og var sá háttur hafður á í ljósi umfangs viðskiptanna og hagsmuna beggja aðila. Þá hefur þess einnig verið gætt að persónugreinanlegar upplýsingar verði ekki opinberar. Fyrirkomulag við sölu eigna hefur eðli máls samkvæmt verið mismunandi eftir þeim eignum sem til sölu hafa verið hverju sinni. Þótt fyrirkomulag við sölu á eignasöfnum sé mismunandi hafa starfsmenn bankans, ESÍ og dótturfélaga þess leitast við að auglýsa útfærsluna hverju sinni og hafa söluferlin opin, m.a. með tilliti til jafnræðisjónarmiða. Við úrvinnslu eigna hefur meginmarkmiðið þó, eftir sem áður, verið að hámarka endurheimtur eigna og þannig takmarka það tjón sem bankahrunið mun á endanum valda Seðlabanka Íslands,“ segir svari Bjarna.
Í svarinu kemur enn fremur fram að Seðlabanki Íslands ætli sér að birta skýrslu á næsta ári um starfsemi ESÍ og meðferð eigna og krafna, sem komu í fang seðlabankans eftir hrunið.