Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, segir að staðan sem komin sé upp í íslenskum stjórnmálum, sé þannig að kjósendur þurfi nú að ráða ferðinni.
Hann segir að það þurfi stjórnmálaflokka í landinu við völd sem hafi „djúpar rætur“ og falli ekki niður í vind, í dægurþrasi stjórnmálanna.
Hann segir að fólkið í landinu þurfi nú að koma að og kjósa sér nýja ríkisstjórn.
Á blaðamannafundi sem Bjarni hélt í Valhöll, sagði hann að viðræður við stjórnmálaleiðtoga annarra flokka, hefðu farið á þann veg, að það væri eins og ekkert hefði breyst frá því í kosningunum síðasta haust.
Á fundinum sagði hann að þetta ferli allt, þar sem stjórn Bjartrar framtíðar hefði slitið sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu, hefði verið óþarft með öllu. Anda hefði mátt rólega, ræða saman og halda áfram með ríkisstjórnarsamstarfinu.
Hann sagði að málin, er tengjast umfjöllun um það hvernig afbrotamenn fá uppreist æru sína eftir að afplánun er lokið, verið bæði erfið og viðkvæm.
Hann sagði jafnframt að það hefði verið honum áfall, að fá upplýsingar um það að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði verið meðal meðmælenda fyrir því að Hjalti Sigurjón Hauksson, barnaníðingur, fengi uppreist æru sína.
Hann sagðist hafa litið svo á, miðað við hvernig staða málsins var innan stjórnkerfisins, að hann hefði þurft að fara með upplýsingarnar um að faðir hans hefði þessa stöðu, sem trúnaðarmál. Ekki á neinum tímapunkti hefði það verið vilji hans að hylma yfir mál, eða leyna þeim með einhverjum hætti.
Fréttin verður uppfærð.