„Svona er pólitíkin og hún mun hafa sinn gang næstu daga, vikur og mánuði. Að mínu mati er æskilegast að boða til kosninga eins fljótt og auðið er.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Facebook síðu sinni. Hún segir djúpstæð vonbrigði þjóðarinnar með það hvernig stjórnvöld hafi brugðist við í málum sem hafa verið í brennidepli verði að taka alvarlega. „Síðustu dagar sýna okkur afdráttarlaust að þolinmæði samfélagsins gagnvart kynferðislegu ofbeldi og hvernig kerfið meðhöndlar slík brot og eftirmála þeirra er á þrotum. Kerfi sem einkennist af leyndarhyggju og stendur vörð um ofbeldismenn en ekki fórnarlömb er meingallað og djúpstæð vonbrigði þjóðarinnar með viðbrögð stjórnvalda í þessum málum er eittvað sem við verðum að taka mjög alvarlega. Verkefni stjórnmálanna er að breyta úreltum kerfum og uppræta sterka tilhneigingu ákveðinna hópa til að standa vörð um sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni,“ segir Þorgerður Katrín.
Þingflokkur Viðreisnar hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu um að best sé að boða til kosninga sem fyrst, í ljósi stöðunnar sem upp er komin í stjórnmálunum.
Eins og kunnugt er sleit Björt framtíð sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu seint í gærkvöldi.
Ástæðan var trúnaðarbrestur, í tengslum við meðmælabréf sem Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, skrifaði vegna umsóknar Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, um uppreista æru.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lét Bjarna vita af meðmælum föður hans í júlí. Aðrir vissu ekki af þessum upplýsingum.
Fréttastofa RÚV vísaði því til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þegar dómsmálaráðuneytið neitaði að afhenda upplýsingar um þá sem vottuðu góða hegðun í umsóknum um uppreista æru. Í niðurstöðu nefndarinnar, sem ekki lá fyrir fyrr en í þessum mánuði, kom fram að afhenda mætti upplýsingar um þá sem votta góða hegðun.
Dómsmálaráðuneytið hyggst birta upplýsingarnar á vef ráðuneytisins.