Erfitt er að átta sig á stöðunni sem komin er upp eftir stjórnarslitin. Þetta segir Eva Heiða Önnudóttir, nýdoktor við stjórnmálafræðideild við Háskóla Íslands. Betur muni koma í ljós hvað verður þegar formenn flokkanna hafa talað saman í dag. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa hent á milli sín í morgun hvort betra sé að boða til kosninga eða mynda nýja ríkisstjórn.
Eva Heiða telur að nýjar kosningar muni ekki endilega skila auðveldari stöðu í íslenskum stjórnmálum. Því miðað við síðustu kosningar og nýjustu skoðanakannanir þá yrðu stjórnarmyndunarviðræður jafn vandasamar og þær voru í fyrra.
Kosningar 45 daga eftir þingrof
Forsætisráðherra fer í reynd með það vald að rjúfa þing en forsetinn gerir það að beiðni hans. Þingrof hefur fyrst og fremst þau áhrif að boðað er til kosninga og þingstörfum lýkur fljótlega eftir að tilkynningin hefur verið lesin upp eða gefin út.
Í stjórnarskránni kemur fram að áður en 45 dagar eru liðnir frá því að tilkynnt var um þingrofið skuli boða til kosninga. Í forsetabréfi um þingrof kemur því dagsetning kosninganna fram enda fellur þá saman gildistaka þingrofs og kosning nýs þings. Þetta var hins vegar gert árið 1931 og 1974 til að koma í veg fyrir að Alþingi lýsti vantrausti á stjórnina og til að knýja fram kosningar strax.
Í 24. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að forseti lýðveldisins geti rofið Alþingi og skuli þá stofnað til nýrra kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið. Enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.
Tíminn knappur
Forsætisráðherrann hefur umboð til stjórnarmyndunarviðræðna þangað til hann skilar því formlega til forseta. Eva Heiða telur að hann gæti reynt að mynda nýja stjórn en ef ekki þá muni hann skila umboðinu. Eftir það muni forsetinn ákveða næstu skref eftir að hafa rætt við formenn annarra flokka. Fjórði möguleikinn sé að þingrof verði en þá verði boðið til nýrra kosninga ekki seinna en eftir 45 daga.
Eva Heiða segir að ekkert formlegt ferli sé fyrir svona stöðu. „Það kæmi mér ekki á óvart ef forsetinn myndi vilja ræða við aðra leiðtoga,“ segir hún. Ef þingrof yrði núna kæmu til önnur álitamál. Flokkar þyrftu tíma til að setja upp lista og safna meðmælum. Þetta eigi ekki einungis við um flokka á þingi heldur hina sem eru fyrir utan þing. Hún bendir á að þetta snúist ekki einungis um sanngirni gagnvart framboðum heldur gagnvart kjósendum líka.
Mörgum spurningum er enn ósvarað eins og ástandið er núna. Eva Heiða segir að huga þurfi að hvað verði um fjárlögin. Ef starfsstjórn taki til starfa þá þurfi hún að afgreiða fjárlögin sem nú eru tilbúin. Í fyrra afgreiddi starfsstjórn fjárlög sem hún sjálf kom með en ef starfsstjórn yrði samansett af stjórnarandstöðu þá myndu málin flækjast. Staðan sé því alls ekki einföld.