Bjarni Benediktsson hefur ekki í hyggju að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og ætlar að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn á landsfundi hans, sem fer fram 3. til 5. nóvember næstkomandi.
Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að það hafi ekki komið í huga hans, að stíga alveg til hliðar, og ástæðan sé ekki síst sú, að það sé margt óunnið enn í landsstjórninni, og þar hafi Sjálfstæðisflokkurinn hlutverk.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur þingflokkurinn rætt það, að mikilvægt sé fyrir flokkinn að ná fljótt að græða sár, „þétta raðirnar“, eins og einn viðmælandi komst að orði, í starfi flokksins og undirbúa kröftugan landsfund, áður en síðan yrði kosið.
Bjarni sagði á blaðamannafundi í Valhöll í dag, þar sem hann gerði atburðarásina æsilegu að umtalsefni, sem að lokum leiddi til falls ríkisstjórnar hans, að honum hugnaðist best að kjósa í nóvember. Best væri að hleypa nú kjósendum að sem fyrst, í ljósi stöðunnar.
Hann talaði enn fremur fyrir því, að nú þyrfti að koma á meiri festu í stjórnmálunum og sagði flokka með „djúpar rætur“, sem ekki féllu við í fyrsta vindi, þurfa að koma að landsstjórninni.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun á morgun funda með öllu forystufólki stjórnmálaflokkanna á Alþingi, og má búast við því að þá skýrist staða mála á hinu pólitíska sviði. Leiðtogar flokkanna allra hafa talað fyrir því, að best sé að ganga til kosninga sem fyrst, og er því líklegast að það verði raunin innan ekki svo langs tíma.