Um leið og það lá fyrir, að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, hefðu vitað af því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, hefði mælt með uppreist æru fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, barnaníðing, þá nötraði allt og skalf innan Bjartrar framtíðar. Algjör samstaða var svo innan stjórnar flokksins um að slíta Bjarta framtíð frá ríkisstjórnarsamstarfinu, eftir nokkuð tilfinningaríkan fund í kvöld.
Óánægja með trúnaðarbrest
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, segir að innan flokksins hafi verið sérstaklega mikil óánægja með framgöngu Sigríðar Andersen, dómsmálaráðherra. Að mati flokksmanna hafi hún verið uppvís að trúnaðarbresti, þegar hún upplýsti um það í sjónvarpsviðtali við Stöð 2, að hún hefði tilkynnt Bjarna Benediktssyni um það í júlí síðastliðnum, að faðir hans, Benedikt Sveinsson, væri meðal meðmælenda fyrir því að Hjalti Sigurjón fengi uppreist æru.
Litið var á þetta sem trúnaðarbrest innan ríkisstjórnarsamstarfsins að vitneskju um þessi atriði hefði verið haldið innan Sjálfstæðisflokksins.
Hjalti Sigurjón var dæmdur í fangelsi fyrir að nauðga og misþyrma stjúpdóttur sinni á tólf ára tímabili, þegar hún var á aldrinum 5 til 17 ára.
Þá hafði ráðuneytið ekki gert nein gögn um þá sem vottuðu góða hegðun þeirra sem fengu uppreist æru opinber. Fréttastofa RÚV kærði neitun dómsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem svo felldi úrskurð á þá leið, að upplýsingar um votta ættu að vera opinberar. Ráðuneytið hyggst gera þær upplýsingar opinberar, samkvæmt upplýsingum frá Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, en það hefur ekki verið gert enn.
„Það var alveg samstaða um ekki yrði komist lengra í þessu samstarfi,“ segir Guðlaug um fund flokksmanna Bjartrar Framtíðar.
Er Björt framtíð byrjuð að ræða við aðra flokka um ríkisstjórnarsamstarf, eða hvað er það sem nú tekur við? „Ég hef engar upplýsingar um slíkt, og satt best að segja veit ég ekki hvað gerist nú. Við erum fyrst og fremst að taka þessa ákvörðun út frá vilja flokksmanna,“ segir Guðlaug.
Ekki liggur fyrir hvað gerist nú, en ljóst er að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er óstarfhæf og þarfnast innkomu nýs flokks úr núverandi stjórnarandstöðu, ef hún á að halda velli undir forystu Bjarna.
Hann hefur ekkert tjáð sig um stöðu mála.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru nú stíf fundarhöld hjá bæði Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Líklegt er að á morgun ráðist framhald ríkisstjórnarsamstarfsins, og yfir höfuð hvernig ríkisstjórnarmynstur mun taka við valdaþráðum í íslenskum stjórnmálum.