Atburðarásin á undanförnum sólarhring, sem nú hefur leitt til þess að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur liðast i sundur, kom ekki aðeins Bjarna sjálfum í opna skjöldu heldur ekki síður fjárfestum á markaði.
Úrvalsvísitala kauphallarinnar hrundi strax í fyrstu viðskiptum í morgun, og endaði í lok dags, niður um tæplega þrjú prósent. Það telst mikið á einum viðskiptadegi.
Mest var lækkunin á hlutabréfum í fasteignafélaginu Eik, um 5 prósent, og HB Granda, um 3,8 prósent.
Á skuldabréfamarkaði voru gríðarlegar sviptingar. Ávöxtunarkrafa rauk upp um allt að 48 punkta, sem leiddi til verðfalls. Sjaldséð er að sjá svo mikla niðursveiflu, og var greint frá því að vef Viðskiptablaðsins að starfsfólk á markaðnum hefði talað um „slátrun“.
Einn viðmælenda Kjarnans á fjármálamarkaði sagði að ríkisstjórnarslitin hefðu „varpað sprengju“ á markaðinn, og sagði að svo virtist sem töluverðrar óvissu gætti nú á markaðnum. Verðbólguhorfur, miðað við stöðuna á skuldabréfamarkaði, hefðu snarversnað á einum degi.
Þá veiktist gengi krónunnar umtalsvert. Mest var veikingin gagnvart pundinu, eða rúmlega tvö prósent. Það kostar nú 145 krónur. Gengi krónunnar gagnvart evru veiktist um 1,5 prósent og kostar evran nú 126 krónur.
Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal veiktist heldur minna, eða um 0,5 prósent. Hann kostar nú 106 krónur.