Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segist hafa haft fullan rétt til að deila upplýsingum með forsætisráðherra, um það að faðir hans væri meðal meðmælenda við uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar.
Í ítarlegri grein í Morgunblaðinu í dag, rekur hún atburðarás sem tengist uppreist æru einstaklinga sem verið hefur í brennidepli að undanförnu, og var undirrót þess að upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu slitnaði.
Ráðherrum ríkisstjórnarinnar er frjálst að kynna sér efni trúnaðarskjala vegna ákvörðunar um uppreist æru, þ.m.t. forsætisráðherra, segir í grein Sigríðar.
Að sögn Sigríðar fer ákvörðun um uppreist æru frá ráðuneyti, inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti kynnt sér þau skjöl sem þar búi að baki. „Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráð- herra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun,“ segir Sigríður í greininni.
Hún segir hug sinn hvíla hjá aðstandendum og brotaþolum. Jafnframt segist hún hugsi yfir fjölmiðlaumfjöllun um þessi mál, þar sem þau geti valdið brotaþolum í málum, aðstandendum og því fólki sem lagði nafn sitt við umsóknir um uppreista æru miklum óþægindum. Málin séu erfið, og hugsun þeirra sem mæli með uppreist æru fyrir einstaklinga sé í flestum tilvikum sú að leggja gott eitt til, og hjálpa fólki að komast á ról í lífinu á nýjan leik.
Engin ábyrgð eða einhvers konar blessun yfir brotinu sé fyrir hendi í þessum málum, þó skrifað sé undir meðmæli, og ályktanir um annað séu úr lausu lofti gripnar.
Sigríður ítrekar síðan að hafin sé vinna við endurskoðun laga um veitingu uppreist æru.