Ráðgjafaráð Viðreisnar, sem skipað er 40 einstaklingum, segir í ályktun að nauðsynlegt sé að rannsaka embættisfærslur ráðherra sem leiddu til stjórnarslita.
Þá segir einnig í ályktun ráðsins að ráðherrum flokksins sé „rétt og skylt að verða við tilmælum forseta Íslands um að sitgja áfram í ráðuneytum sínum, enda er þar byggt á langri stjónskipulegri hefð á Vesturlöndum,“ að því er segir í tilkynningu ráðgjafaráðsins.
Í ráðgjafaráðinu sitja stjórn Viðreisnar, þingflokkur, varaþingmenn, formenn málefnanefnda, stjórnir landshlutaráða og stjórn ungliðahreyfingar flokksins.
Í stjórn Viðreisnar eru sjö einstaklingar auk Benedikts Jóhannessonar, formanns, og Jónu Sólveigar Elínardóttur, þingmanns og varaformanns. Það eru Ásdís Rafnar, lögfræðingur, Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, lögfræðingur og formaður ungliðahreyfingar Viðreisnar, Georg Brynjarsson, hagfræðingur, Jórunn Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Sigríður María Egilsdóttir, laganemi, Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri, og Þórður Magnússon, fjárfestir.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist ætla að gefa Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, svar í dag um það hvort ráðherrar flokks hans taki sæti í starfsstjórninni fram að kosningum. Gera má ráð fyrir að hann játi því, sé mið tekið af ályktun ráðgjafaráðsins.
Gert er ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson, forsætiráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, muni leggja fram beiðni um þingrof á fundi með forsetanum á morgun. Líklegast er að kosningar fari fram 28. október.