Sósíalistaflokkur Íslands ætlar ekki að bjóða fram í komandi þingkosningum, sem fara fram í lok október. Þetta var niðurstaða félagsfundar flokksins sem haldin var í kvöld.
Í tilkynningu frá flokknum segir að félagar flokksins hafi samþykkt að fyrstu verkefni hans yrðu að byggja upp lýðræðislegt innra starf, útfæra grunnstefnu flokksins og blása til Sósíalistaþings í haust. „Þessu starfi miðar vel og hreyfing er að verða til. En því er ekki lokið. Af þeim sökum ætlar Sósíalistaflokkurinn ekki að bjóða fram í komandi þingkosningum. Þess í stað mun flokkurinn halda áfram að vinna að uppbyggingu fjöldahreyfingar sem í framtíðinni mun beita sér innan verkalýðshreyfingarinnar, í sveitastjórnum og á þingi.“
Flokkurinn mældist með 0,29 prósent fylgi í þjóðarpúlsi Gallup í byrjun ágúst. Fylgi flokksins var ekki nægjanlegt til að greint væri frá því í síðustu birtu könnunum á fylgi stjórnmálaflokka.