Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur farið fram á að fá afhent dagbókarfærslur eða sambærileg gögn sem staðfesta símtal Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra þar sem Sigríður kynnti Bjarna að faðir hans væri á meðal meðmælanda Hjalta Sigurjóns Haukssonar vegna umsóknar hans um uppreist æru. Þetta kemur fram í beiðni sem Þórhildur Sunna hefur sent á dómsmálaráðuneytið. Beiðnin er lögð fram á grundvelli upplýsingalaga.
Í henni er einnig farið fram á að fá lista yfir öll málsgögn í málum Róberts Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, og Hjalta Sigurjóns. Þórhildur Sunna fer auk þess fram á að fá öll málsgögn varðandi ákvörðun Sigríðar um að veita ekki fleiri einstaklingum uppreist æru og hefja endurskoðun á lagaákvæðum um hana.
Þá fer hún fram á að fá minnisblöð dómsmálaráðuneytisins til Sigríðar þar sem mælt er með uppreist æru eða fjallað um veitingu hennar til Róberts og Hjalta Sigurjóns.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk fyrir tíu dögum síðan eftir að Björt framtíð sagði sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Ástæðan var alvarlegur trúnaðarbrestur eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um að hann fengi uppreist æru.