Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðslu í nótt kusu gegn frumvarpi um breytingar á lögum um útlendinga þegar það var afgreitt. Frumvarpið var hins vegar samþykkt með 38 atkvæðum þingmanna úr öllum hinum sex flokkum þingsins. Átta þingmenn voru fjarverandi eða með skráða fjarvist. Flutningsmenn þess voru formenn Vinstri grænna, Viðreisnar, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks og þingflokksformaður Pírata. Samþykkt frumvarpsins kemur meðal annars í veg fyrir að börnum hælisleitenda sem hér eru nú þegar, og hefur verið synjað um efnislega meðferð, verði vísað úr landi. Þar á meðal eru tvær stúlkur sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, Haniye Maleki og Mary. Alls hafa breytingarnar áhrif á stöðu um 80 barna í hópi hælisleitenda.
Bráðabirgðaákvæðum bætt við
Frumvarpið var eitt þeirra sem samþykkt var að myndi fá afgreiðslu svo hægt yrði að slíta þingi. Samkvæmt því myndu tvö bráðabirgðaatkvæði bætast við lög um útlendinga. Annað þeirra snerist um að ef meira en níu mánuðir hafi liði frá því að umsókn barns um alþjóðlega verndi hérlendis barst íslenskum stjórnvöldum fyrst þá skuli taka hana almennt til efnislegrar meðferðar. Jafnframt væri þá almennt eðlilegt að taka til efnislegrar meðferðar umsókn foreldra sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkina þeirra.
Hins vegar var lagt til að heimilt yrði að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan fimmtán mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Sama myndi gilda um foreldra og eftir atvikum systkini þeirra.
Þá var þeim börnum sem þegar hafa ekki yfirgefið landið en kærunefnd útlendingamála hafði þegar synjað um efnismeðferð, en falla undir lagabreytingarnar, veittur tveggja vikna frestur frá gildistöku laganna til að fara fram á endurupptöku.
Hefur áhrif á stöðu um 80 barna
Frumvarpið var lagt fram til þess að tvær stúlkur, Haniye og Mary, sem til stóð að vísa úr landi ásamt fjölskyldum þeirra, myndu ekki verða sendar í burt. Það nær auk þess til mun fleiri barna í hópi hælisleitenda. Áður en ákveðið var að boða til kosninga hafði verið lagt fram sértækt frumvarp til að koma í veg fyrr brottvísun stúlknana, en það hlaut aldrei efnislega meðferð vegna stjórnarslita og eftirmála þeirra.
Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar kom fram að breytingin á lögunum geti haft áhrif á stöðu um 80 barna.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði: „Lagt er til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna. Segja má að með því móti gefist níu mánaða svigrúm frá gildistöku laganna til að ákveða æskilegt framhald enda væri það fyrst níu mánuðum eftir gildistöku sem breytingar af þessu tagi gætu haft bein áhrif á umsóknir sem berast eftir gildistöku. Að mati flutningsmanna er eðlilegt að veita slíkt svigrúm svo að unnt verði að meta betur áhrif breytinganna og nýtt þing geti tekið afstöðu til þess hvernig æskilegt sé að málinu verði fram haldið.“
Telja að breytingarnar geti aukið hættu á mansali
Í nefndaráliti minnihluta allsherjarnefndar, sem samanstóð af þingmönnum Sjálfstæðisflokks í nefndinni, sagði m.a.: „Við meðferð málsins komu jafnframt fram alvarlegar athugasemdir sem snúa að þeim skilaboðum sem felast í frumvarpinu og snúa að því að börn eða fjölskyldur með börn geti fengið einfaldari málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Komið hafa upp mál tengd mansali á börnum hérlendis og hætt er við að breytingarnar geti aukið hættu á mansali eða smygli á börnum. Þá kom fram að Europol hefur varað við því að nú eru um 10.000 börn flóttafólks í Evrópu sem ekki er vitað hvar eru niðurkomin. Bent var á að þrátt fyrir að um skýrt afmarkaða afturvirka breytingu sé að ræða sé erfitt að sporna við því að flökkusögur fari á kreik um að auðveldara sé að fá hæli hér á landi en áður og að skipulögð glæpastarfsemi sem gerir út á smygl á fólki víli ekki fyrir sér að kynda undir þá túlkun.“
Frumvarpið var, líkt og áður sagði, samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þingmanna sex flokka. Alls sögðu 38 þingmenn já. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna, alls 17 talsins, greiddu atkvæði gegn því og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, var eini formaður stjórnmálaflokks með sæti á þingi sem var ekki á meðal flutningsmanna frumvarpsins.