Greinandi hjá Carnagie greiningarfyrirtækinu í Danmörku fjallar um Össur í greiningu sinni, og nefnir þar að tilkynnt hafi verið um fluttning á 50 starfsgildum frá Íslandi til Mexíkó, þar sem Össur er með framleiðslu. Er þetta sagt gert til að draga úr kostnaði.
Jafnframt er tekið fram að ekki standi til að flytja fleiri störf á milli starfsstöðva.
Greinandinn segir í greiningu sinni á Össuri, að eins og áður sé nýsköpun og vöruþróun hjá fyrirtækinu einstaklega áhugaverð, og tækninýjungar sem frá fyrirtækinu komi séu heillandi. Hins vegar sé það mat greinanda að það geti verið erfitt fyrir Össur að finna kaupendur fyrir margar af þessum vörum. Það sé hluti af krefjandi umhverfi fyrirtækisins að finna leiðir til að viðhaldandi ásættanlegum vexti til framtíðar.
Greiningin var send út til fjárfesta í gær, eftir markaðsdag með stjórnendum Össurar.
Ráðgjöfin til fjárfesta sem eiga bréf í félaginu er sala (Sell), og eru bréfin í félaginu sögð yfirverðlögð um 15 prósent, miðað við gengið á danska markaðnum. Er þar sagt að verðið hafi verið 29,9 danskar krónur á hlut, en að mati greinenda sé það 26 danskar krónur á hlut.
Össur er tvískráð á markað í Danmörku og Íslandi, en danskir hluthafar eru stærstu eigendur, með meira en 60 prósent hlutafjár. Samtals eru erlendir hluthafar með meira en tvo þriðju alls hlutafjár, en danska félagið William Demtants (Oticon Foundation) er stærsti hluthafinn, með tæplega 50 prósent hlut.
Á undanförnum tólf mánuðum hefur gengi bréfa í Össur hækkað um 9,83 prósent, en innan þessa árs hefur markaðsvirðið hækkað um 21 prósent.
Sterkur efnahagur
Rekstur félagsins hefur verið traustur og efnahagurinn sömuleiðis. Eigið fé félagsins nam 467,8 milljónum Bandaríkjadala í lok annars ársfjórðungs, eða sem nemur rúmlega 50 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins nam 205 milljörðum króna, við lokun markaða í dag. Það er um 20 prósent af heildarvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Uppgjör félagsins eftir annan ársfjórðung þessa árs var í takt við áætlanir félagsins, samkvæmt tilkynningu til kauphallar. Sala nam 145 milljónum Bandaríkjadala (15,2 milljörðum íslenskra króna) samanborið við 139 milljónir Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi 2016 og nam söluvöxtur frá fyrra ári 6%, þar af 3% innri vöxtur, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt, samkvæmt tilkynningunni. Hagnaður nam 13 milljónum Bandaríkjadala, 1,4 milljörðum íslenskra króna.
Samtals starfa 2.800 manns hjá Össuri í 20 löndum, en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Íslandi og hafa alltaf verið frá stofnun, árið 1971.